01. júlí 2024

Átta leikskólar fengu viðurkenningu sem Réttindaskólar UNICEF 

Réttindaskólar á leikskólastigi nú orðnir fimmtán talsins – Stórkostlegt að fylgjast með breytingunum og sjá verkefnið þróast segir réttindaskólastjóri UNICEF á Íslandi.  

Krakkarnir á Hulduheimum stoltir með Réttindaskólafánann.

Það hefur verið mikið um dýrðir og taumlaus gleði hjá starfsfólki UNICEF á Íslandi undanfarnar vikur því við höfum fengið að heimsækja fjölmarga leikskóla í Reykjavík og á Akureyri sem bæst hafa í hóp Réttindaskóla UNICEF á leikskólastigi. Átta leikskólar hafa síðan í vor hlotið viðurkenningu sem Réttindaskóli og eru þeir nú orðnir alls fimmtán talsins á landinu.

Um er að ræða mikið frumkvöðlastarf og er UNICEF á Íslandi brautryðjandi á heimsvísu varðandi þessar viðurkenningar á leikskólastigi því engin önnur landsnefnd UNICEF er með sambærilegt verkefni í gangi. Fylgjast erlendar landsnefndir UNICEF vel með framvindu og árangri þessa verkefnis hér á landi.   

Leikskólarnir sem hlutu nýverið viðurkenningu eru Krógaból, Kiðagil og Hulduheimar á Akureyri og Gullborg, Laugasól, Vinagerði, Ævintýraborg Eggertsgötu og Ungbarnaleikskólinn Bríetartúni og Hallgerðargötu í Reykjavík. 
(Fréttin heldur áfram fyrir neðan myndirnar)

Krakkarnir á Krógabóli í miklu réttindastuði með úrval flottra fána með í för.
Krakkarnir á leikskólanum Kiðagili fögnuðu áfanganum.

Innleiða ákvæði Barnasáttmálans í starfshætti leikskólanna 

Markmið Réttindaskóla UNICEF er að innleiða ákvæði Barnasáttmálans á markvissan hátt í starfshætti leikskólanna og að aðlaga að hugmyndum sáttmálans. Tilgangurinn með því er að valdefla börnin, hlusta á hugmyndir þeirra og sjónarmið og stuðla að því að þau verði raunverulegir áhrifavaldar í leikskólanum.  

Með lögfestingu Barnasáttmálans á Íslandi árið 2013, hefur verið vakin athygli á samfélagslegri stöðu barna og réttindi barna verið alþjóðlega viðurkennd. Áhersla er lögð á virðingu fyrir sjónarmiðum barna og rétti þeirra til að hafa áhrif á málefni sem varða þau. Samningurinn tekur einnig á rétti barna á vernd fullorðinna fyrir hugsanlegri skaðlegri reynslu. Lagasetning á Íslandi byggist á samningnum, þar með talin lög um leikskóla. Þar er kveðið á um að leggja grundvöll að því að börn verði sjálfstæðir, virkir og ábyrgir þátttakendur í lýðræðisþjóðfélagi sem er í örri og sífelldri þróun. Sömu áherslu má finna í nýsamþykktri menntastefnu fyrir árin 2021–2030 þar sem kveðið er á um að frá fyrstu tíð skuli raddir barna heyrast og þeir fá tækifæri til að hafa áhrif á námsumhverfi sitt.  

Börnin í Laugasól með Réttindaskólafánann sinn.
Börnin í Gullborg fagna viðurkenningu skólans.

Mannréttindi eru hluti af hversdagsleikanum 

Fólk upplifir gjarnan mannréttindi sem fjarlægt hugtak sem erfitt geti verið að festa fingur á. Þekking fólks á mannréttindum er gjarnan takmörkuð við mannréttindabrot í alþjóðlegu samhengi, t.d. í stríði eða við náttúruhamfarir. Mannréttindi eru hins vegar einnig hluti af hversdagsleikanum og jafnframt náttúrulegur þáttur í starfi leikskólans. Ávinningur innleiðingarinnar felst í hagnýtingu Barnasáttmálans.   

Réttindaskólar UNICEF á leikskólastigi er innleiðingarferli sem hefur verið í þróun frá árinu 2019 og hafa allir þessir 15 leikskólar, Menntavísindasvið HÍ og SFS Reykjavíkurborgar og Menntasvið Kópavogsbæjar komið að þessari þróun og aðlögun á verkefninu fyrir leikskólastigið.   

Með þaulreyndri aðferðafræði Réttindaskóla UNICEF á grunnskólastigi hafa leikskólarnir rýnt í dagsskipulag leikskólans, þá sérstaklega starfshætti, skipulag starfsstaðar og aðstöðu með það að markmiði að gefa börnum reglubundin tækifæri til þess að hafa bein áhrif á fyrrnefnda þætti. 

Til þess að hljóta viðurkenningu sem Réttindaskóli UNICEF þarf að vera mælanlegur árangur í þágu réttinda barna.  

Sigyn Blöndal, réttindaskólastjóri UNICEF á Íslandi: 

„Þegar innleiðing hefst byrjum við á því að rýna í starfið í hverjum og einum leikskóla og gerum stöðumat. Hvernig er staðan með barnaréttindagleraugun á nefinu? Þá erum við að horfa á þekkingu starfsfólks, tækifæri barna til áhrifa og merkingarbærrar þátttöku og fleira. Þetta er mikilvæg vinna því niðurstöðurnar nýtum við í að setja upp aðgerðaáætlun þar sem allar aðgerðir stuðla að auknum réttindum barna innan leikskólans. Við leggjum mikla áherslu á fræðslu fyrir starfsfólkið því það er á okkar ábyrgð, okkar fullorðna fólksins, að búa til réttindamiðað umhverfi þar sem réttindi barna eru virt og börnin valdefld til þess að iðka réttindi fyrir sig sjálf og önnur börn.“   

„Það er búið að vera alveg stórkostlegt að fylgja þessu eftir sl. ár og sjá þetta þróast og sjá breytingarnar sem eiga sér stað. Ferlið er búið að vera í þróun og nú 5 árum síðar er tilbúið fullmótað innleiðingarferli fyrir leikskólana rétt eins og grunnskólana og hlökkum við til að taka á móti fleiri leikskólum í haust.“  

Starfsfólk og stjórnendur voru líka mjög ánægð með vinnuna og hér eru nokkrar tilvitnanir úr umsögnum þeirra: 

„Starfið í vetur hefur að mestu gengið út á að byggja upp með börnunum áframhaldandi lýðræðislegt umhverfi. Starfsmenn hafa fengið mikla fræðslu og verkfæri í hendurnar til að vera færir í að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í allt starf leikskólans. Þetta verkefni hefur breytt starfinu mikið í leikskólanum og kemur að öllum þáttum starfsins. Börnin eru meðvitaðri um réttindi sín og eru örugg að tjá skoðanir sínar og væntingar til námsins.“ 

„Starfsandi er miklu betri og þetta verkefni hjálpaði okkur að vinna sem ein heild.“  

„Gekk mun betur en væntingar stóðu til að stokka upp skipulag og hugsanagang. Breyta og hugsa uppá nýtt gekk vel og gaman að fá umræðuna af hverju og hvers vegna.“  

Kynntu þér verkefnið Réttindaskóli- og frístund UNICEF nánar hér.

Börn á leikskólanum Ævintýraborg Eggertsgötu fagna viðurkenningunni.
Krakkarnir í Vinagerði flagga réttindafánanum.
Frá viðurkenningarathöfninni í Ungbarnaleikskólanum Bríetartúni og Hallgerðargötu.
Fleiri
fréttir

20. nóvember 2024

UNICEF: Framtíð barnæskunnar hangir á bláþræði í breyttum heimi 
Lesa meira

20. nóvember 2024

Ungmenni fá orðið á Alþjóðadegi barna: „Kæra fullorðna fólk– Hlustið á okkur“
Lesa meira

18. nóvember 2024

Þúsund dagar af stríði í Úkraínu: 16 börn drepin eða særð í hverri viku
Lesa meira
Fara í fréttasafn