Í hvað fara
framlögin?
Frjáls framlög
Allt sem við gerum byggist á frjálsum framlögum. Mikill meirihluti framlaganna hér á landi kemur frá almenningi, svokölluðum Heimsforeldrum. Með þessu er okkur sýnt mikið traust og fyrir það erum við þakklát. Enn fremur erum við mjög meðvituð um að fara vel með traustið.
Nálgun okkar er því afar skýr: Við hugsum vandlega um það hvernig við notum hverja einustu krónu. Allar ársskýrslur okkar er að finna hér en í þeim er að finna ítarlegt yfirlit yfir tekjur og útgjöld hvers árs fyrir sig. Við hvetjum þig til að skoða þær.
Við leggjum okkur fram um að veita árlega sem allra mestu í hjálparstarf fyrir börn. Þar skipa svokölluð óeyrnamerkt framlög stærstan sess. Þetta eru framlögin sem gera UNICEF kleift að bregðast við þar sem þörfin er mest hverju sinni, veita hjálp óháð því hvar kastljós fjölmiðla er hverju sinni og stuðla að varanlegum umbótum fyrir börn í heiminum.
Loforð UNICEF á Íslandi varðandi fjármál eru afar skýr. Aldrei nokkurn tímann skal minna en 75% af söfnunarfé til okkar fara beint til verkefna fyrir börn.
Þurfum að hugsa
um hverja krónu
Vegna beinna rekstrarframlaga er að hámarki 25% af söfnunarfé okkar varið til reksturs og stjórnunar landsnefndarinnar og stærstur hluti þess fer í að safna enn meiri framlögum til að hjálpa enn fleiri börnum og hlúa að núverandi styrktaraðilum.
Til reksturs og stjórnunar teljast þættir sem eru nauðsynlegir til að hægt sé að reka ábyrgt og traust hjálparstarf, vera viss um að öll framlög skili sér og allt sé eins og það eigi að vera. Í umræddum kostnaði felst meðal annars kostnaður við endurskoðun, gæðastjórnun, eftirlit og kostnaður við sendingu fjárframlaga til hjálparstarfs UNICEF erlendis.
Varðandi fjáröflun gerum við þá ófrávíkjanlegu kröfu að öll útgjöld til fjáröflunar skili sér margfalt til baka í framlögum og þannig aukist heildarráðstöfun til verkefna fyrir börn
Framlögin og ráðstöfun
Langstærstur hluti framlaganna hér á landi kemur frá Heimsforeldrum. Ef ekki væri fyrir þennan stuðning og öll samstarfsfyrirtækin sem styðja okkur, gætum við ekki sinnt langtímauppbyggingu um víða veröld eða brugðist strax við þegar neyðarástand skapast. Alls safnaði UNICEF á Íslandi rúmum 799 milljónum króna árið 2021. Engin landsnefnd hjá UNICEF safnar hlutfallslega hærri framlögum. Við vinnum ársreikninginn okkar í apríl og ársskýrslan okkar kemur út í maí ár hvert. 75,1% af söfnunarfé okkar árið 2021 fór til verkefna fyrir börn um allan heim.
Af hverju
fjáröflun?
UNICEF treystir alfarið á frjáls framlög. Stuðningur sem við fáum frá einstaklingum, fyrirtækjum, sjóðum og félagasamtökum er forsenda þess að við getum staðið fyrir öflugu hjálparstarfi og búið börnum betri heim. Fjáröflun skipar þar af leiðandi stóran sess í starfi okkar.
Með öflugri fjáröflun náum við að hjálpa miklu fjölmennari hópi en ella. Það er skylda okkar að koma bágstöddum börnum til aðstoðar og leggja okkur fram um að veita sem flestum hjálp.
Við leggjum mikið upp úr því að fjáröflun okkar sé ábyrg og fylgi skýrum reglum. Við höfum sett okkur sérstakar verklagsreglur sem við hvetjum þig til að kynna þér.
Þar kemur meðal annars fram að gerð er sú ófrávíkjanlega krafa að öll útgjöld til fjáröflunar skili sér margfalt til baka í framlögum og þannig aukist heildarráðstöfun til verkefna fyrir börn.
Við sjáum á hverjum einasta degi hvernig barátta UNICEF snertir líf barna í öllum heimshornum. Takk fyrir að vera með.
Baráttan snertir líf barna í
öllum heimshornum
Við sjáum á hverjum einasta degi hvernig barátta UNICEF snertir líf barna í öllum heimshornum og vitum að því meira sem við náum að safna þeim mun fleiri börnum getur UNICEF hjálpað. Mikill árangur hefur til dæmis náðst við að minnka tíðni barnadauða á heimsvísu en enn látast þó þúsundir barna daglega af einföldum orsökum sem hægt er að fyrirbyggja. Þessu vill UNICEF breyta og til þess að geta gert það þurfum við fjárframlög. Tengslin á milli þessu hve miklu við náum að safna og hve mörgum börnum okkur tekst að hjálpa eru því raunveruleg og áþreifanleg.
Hjálpaðu okkur að tryggja
réttindi allra barna
UNICEF nýtur mikils trausts og leggur áherslu á víðtæka samvinnu við yfirvöld, félagasamtök, samfélög og börnin sjálf. Við gegnum leiðandi hlutverki í hjálparstarfi fyrir börn og erum því í einstakri stöðu til að þrýsta á um stórfelldar breytingar sem hafa áhrif á heimsvísu. Með þinni hjálp vinnum við að því að gæta allra barna.