07. október 2020

UNICEF sendir alþjóðlegt ákall til að tryggja laun kennara í Jemen

Vangoldin laun kennara, reglulegar árásir á skóla og heimsfaraldur Covid-19 hafa haft verulega slæm áhrif á menntun barna í Jemen.

Vangoldin laun kennara, reglulegar árásir á skóla og heimsfaraldur Covid-19 hafa haft verulega slæm áhrif á menntun barna í Jemen. Staðan er grafalvarleg og því hafa UNICEF, UNESCO og Education Cannot Wait, sem er alþjóðasamstarf um menntun barna, sent út sameiginlegt ákall þar sem kallað er eftir því að alþjóðasamfélagið sem og yfirvöld í Jemen grípi til raunverulegra aðgerða til að tryggja laun kennara í öllum landshlutum í Jemen. Margir kennarar hafa ekki fengið greidd laun síðan 2016 og hafa því þurft að finna aðrar leiðir til að sjá fyrir fjölskyldum sínum sem kemur verulega niður á réttindum barna til menntunar.

Ástandið í Jemen, einu fátækasta landi heims, er skelfilegt. Átök hafa staðið yfir í fjölda ára, smitsjúkdómar á borð við kóleru, mislinga og lömunarveiki hafa dreifst um landið og tugir farist og misst heimili sín í miklum flóðum. Þessar hamfarir, ásamt mikilli fátækt, hafa hrakið að minnsta kosti tvær milljónir barna úr skóla. Blóðugar árásir, lamað heilbrigðiskerfi og hungur voru allt daglegar áskoranir barna fyrir útbreiðslu Covid-19, sem hefur gert ástandið í landinu enn verra.

Menntun er forgangsatriði

Að tryggja menntun barna er forgangsatriði hjá UNICEF. Frá því að átök brutust út hefur UNICEF meðal annars komið upp barnvænum svæðum þar sem bráðabirgðaskólar hafa verið settir upp, hjálpað við að greiða kennurum, lagfært yfir 1.300 skóla og útdeilt námsgögnum. Í samstarfi við menntamálaráðuneytið í Jemen hefur UNICEF einnig unnið að því að tryggja að í skólum séu öruggar sóttvarnir með því að útdeila grímum, spritti, hitamælum, sápu og hreinlætisvörum.

Kennarar og starfsfólk skóla eru hornsteinninn í að tryggja áframhaldandi menntun barna í Jemen og gæði menntunar. Ef ekkert er gert munu frekari tafir á launagreiðslum líklega leiða til allsherjar hruns menntakerfisins og hafa áhrif á milljónir barna. Mikil hætta er á að börn verði neydd í erfiðisvinnu eða að berjast með vopnuðum hópum og að barnahjónabönd, mansal og annars konar misnotkun muni aukast.

Alþjóðasamfélagið þarf að sýna samstöðu í að enda ofbeldi gegn börnum í Jemen og tryggja rétt þeirra til heilsu og menntunar. Umfram allt kallar UNICEF á alla aðila að átökunum sem og alþjóðasamfélagið að binda enda á ofbeldið gegn börnum í Jemen.

UNICEF á Íslandi hefur um árabil staðið fyrir neyðarsöfnun fyrir börn í Jemen sem nú þurfa hjálp sem aldrei fyrr.

Hægt er að hjálpa með því að senda sms-ið JEMEN í númerið 1900 til að styðja neyðaraðgerðir UNICEF um 1.900 krónur.

Það er með hjálp heimsforeldra og þeirra sem hafa stutt við neyðaraðgerðir UNICEF í Jemen sem UNICEF hefur tekist að veita milljónum barna hjálp og staðið fyrir umfangsmiklum neyðaraðgerðum í landinu.

Þú getur líka stutt neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi með frjálsu framlagi hér.


Fleiri
fréttir

20. nóvember 2024

UNICEF: Framtíð barnæskunnar hangir á bláþræði í breyttum heimi 
Lesa meira

20. nóvember 2024

Ungmenni fá orðið á Alþjóðadegi barna: „Kæra fullorðna fólk– Hlustið á okkur“
Lesa meira

18. nóvember 2024

Þúsund dagar af stríði í Úkraínu: 16 börn drepin eða særð í hverri viku
Lesa meira
Fara í fréttasafn