Slóð eyðileggingar blasir við í Bangladess og Mjanmar eftir að fellibylurinn Mocha gekk þar yfir á sunnudag. Tugir létu lífið og jók fellibylurinn enn á neyð milljóna barna og fjölskyldna í viðkvæmri stöðu. Nú vofir yfir hættan á skriðuföllum og vatnsbornum sjúkdómum hjá íbúum.
„Þarna er um að ræða einhvern viðkvæmasta hóp barna og fjölskyldna í heiminum sem enn á ný standa frammi fyrir neyð sem þau eiga enga sök á. Svæðin sem verst urðu úti eru samfélög þar sem fólk var þegar að búa við átök, fátækt og óvægin náttúruöflin,“ segir Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, í tilkynningu. Hún segir UNICEF vinna hörðum höndum að því að meta tjónið og þarfir barna á svæðum sem verst urðu úti.
„Við vitum þegar að besta leiðin til að bjarga og bæta líf barna og fjölskyldna þeirra er að finna langtímalausn á vandanum.“
Fellibylurinn Mocha eyðilagði heimili, heilbrigðisstofnanir, skóla og aðra mikilvæga innviði. Margir af þeim hundruð þúsundum sem búa á svæðunum sem verst urðu úti eru flóttafólk eða fólk á vergangi í heimalandinu sem býr við skelfilegar aðstæður í illa byggðum skýlum í flóttamannabúðum eða öðrum svæðum sem erfitt er að ná til. Þetta fólk reiðir sig nær alfarið á mannúðaraðstoð til að verða sér úti um fæðu, vatn, heilbrigðisþjónustu, menntun og vernd.
Í Mjanmar voru rúmlega 16 milljónir íbúa, þar af 5,6 milljónir barna, á vegi fellibyljarins í Rakhine-héraði og öðrum svæðum norðvesturhluta ríkisins þar sem alvarleg flóð og skriður eru sífelld ógn.
Í Bangladess er Cox‘s Bazar, stærstu flóttamannabúðir veraldar, þar sem ein milljón Róhingja stóð frammi fyrir ógnarafli fellibyljarins. Búðirnar eru eitt þéttbýlasta svæði jarðar þar sem lítið má út af bregða í hinum tímabundnu og viðkvæmu híbýlum til að sjúkdómar, vannæring, misnotkun og ofbeldi gegn börnum blossi upp.
UNICEF segir að nauðsynleg og aukin mannúðaraðstoð á svæðunum þoli enga bið. UNICEF er á vettvangi að meta umfang og þarfir íbúa og veit neyðaraðstoð. Ásamt samstarfsaðilum er UNICEF að koma fyrir og flytja hjálpargögn til Bangladess og Mjanmar og setja aukinn þunga í neyðaraðstoð á svæðunum.
Með því að vera Heimsforeldri hjálpar þú UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, að vera til staðar og bregðast skjótt við þegar hamfarir og skyndileg neyð blossar upp, líkt og í Bangladess og Mjanmar. Framlag þitt skiptir máli, fyrir öll börn.