31. mars 2023

UNICEF styður menntun barna í Kongó í skugga átaka

Aukin harka í átökum stríðandi fylkinga í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó hefur raskað námi 750 þúsund barna síðasta árið

Ung börn í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó fá menntun. Mynd/UNICEF

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, styrkir nú uppsetningu tímabundinna skólasvæða, þjálfun kennara og útvegar námsgögn í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó þar sem harðnandi átök í austurhéruðum landsins hafa raskað verulega menntun barna síðastliðið ár.

Samkvæmt nýjustu gögnum UNICEF hefur skólaganga nærri 750 þúsund barna raskast verulega í tveimur stríðshrjáðustu héruðum austurhluta Kongó. Frá janúar í fyrra til mars í ár hafa 2.100 skólar í Norður-Kivu og Ituri-héruðum neyðst til að hætta starfsemi af öryggisástæðum.

Þúsundir fjölskyldna hafa neyðst til að flýja heimili sín í leit að öryggi og áætlar UNICEF að nærri 240 þúsund börn séu á vergangi í flóttamannabúðum í kringum Goma, höfuðborg Norður-Kivu.

„Það er óásættanlegt að börn á skólaaldri séu að gjalda dýru verði fyrir harðnandi átök og öryggishættur í austurhluta Lýðstjórnarlýðsveldisins Kongó,“ segir Grant Leaity, fulltrúi UNICEF í landinu. „Hundruð þúsunda barna sem ættu að vera að læra og leika sér í öruggri skólastofu eru þess í stað á vergangi vegna ofbeldisverka og búa við skelfilegar aðstæður í stórum og yfirfullum flóttamannabúðum.“

Umfang neyðarinnar gerir það að verkum að meirihluti barna í þessum búðum getur ekki stundað nám þar sem aðeins hluti þeirra hefur aðgengi að barnvænum svæðum UNICEF og tímabundnum skólastofum.

UNICEF vinnur þrotlaust að því að tryggja menntun barna við þessar erfiðu aðstæður með því að koma upp barnvænum svæðum, tímabundnum skólastofum og útvega skólagögn sem fyrr segir.  UNICEF hefur nýverið einnig útvegað skólagögn og afþreyingarefni fyrir ríflega 10 þúsund börn á vergangi við Bunia, höfuðborg Ituri-héraðs, þar sem áður hafði verið dreift stólum og skrifborðum fyrir kennara og nemendur.

Þegar þú ert Heimsforeldri UNICEF hjálpar þú okkur að styðja börn til menntunar í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó sem og um allan heim þar sem þörfin er mikil. Skráðu þig sem Heimsforeldri í dag og taktu þátt í ævintýralegu ferðalagi UNICEF og Múmín.

Börn leika sér í fótbolta. Mynd/UNICEF
Fleiri
fréttir

20. nóvember 2024

UNICEF: Framtíð barnæskunnar hangir á bláþræði í breyttum heimi 
Lesa meira

20. nóvember 2024

Ungmenni fá orðið á Alþjóðadegi barna: „Kæra fullorðna fólk– Hlustið á okkur“
Lesa meira

18. nóvember 2024

Þúsund dagar af stríði í Úkraínu: 16 börn drepin eða særð í hverri viku
Lesa meira
Fara í fréttasafn