Fjölskyldur fá fræðslu um kóleruforvarnir hjá UNICEF í í Deir-ez-Zor í Sýrlandi
„Hröð útbreiðsla kólerufaraldurs í Sýrlandi og Líbanon er verulegt áhyggjuefni og eykur til muna líkurnar á að sjúkdómurinn breiðist til fleiri ríkja innan skamms ef ekkert er að gert,“ segir Bertrand Bainvel, yfirmaður UNICEF í Mið-Austurlöndum og N-Afríku.
Í Sýrlandi er greint frá 20 þúsund tilfellum af bráðaniðurgangi og 75 dauðsföll rakin til sjúkdómsins síðan hann skaut fyrst upp kollinum og í Líbanon hafa greinst 448 staðfest kólerusmit á tveimur vikum og 10 látið lífið. Líbanon hafði verið laust við kólerusmit í 30 ár fram að þessu. Fyrsta smitið greindist 6. Október og síðan hefur tilfellunum bara fjölgað og 57 prósent þeirra sem veikst hafa eru börn undir 14 ára aldri.
„Kólerusmit og bráðaniðurgangur er eldur á olíuna fyrir vannærð börn sem eru líklegri til að veikjast heiftarlega vegna skerts ónæmiskerfis. Þessi faraldur er enn eitt höggið fyrir heilbrigðiskerfin hér sem þegar áttu fullt í fangi með sitt,“ segir Bainvel. „Og kólera virðir engin landamæri frekar en annar faraldur. Rót vandans er að þar sem ástandið er verst eru vatnsinnviðir og hreinlætiskerfi í molum.“
Frá upphafi útbreiðslunnar hefur UNICEF unnið að því að koma hreinu vatni, hreinlætisvörum og sjúkragögnum til svæðanna sem og að brýna fyrir fjölskyldum mikilvægi hreinlætisvenja með fræðslu.