13. september 2023

UNICEF kemur nauðsynlegum hjálpargögnum á hamfarasvæði Líbíu

Minnst 5 þúsund látið lífið og 10 þúsund enn saknað

Frá hamfarasvæðum Líbíu í borginni Derna. © UNICEF/UNI434932/AFP

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, er að koma nauðsynlegum hjálpargögnum til fórnarlamba hamfaraflóðanna í Líbíu í kjölfar óveðurslægðarinnar Daníels sem náði þar landi á sunnudag með skelfilegum afleiðingum. Stíflur brustu með gríðarlegri eyðileggingu og manntjóni. Ríflega 5 þúsund manns eru talin hafa látið lífið og 10 þúsund er enn saknað.

Verst varð úti hafnarborgin Derna þar sem tvær stíflur brustu og sópuðu með sér heilu hverfunum og skildu eftir sig slóð eyðileggingar.

UNICEF í Líbíu er að bregðast við neyð fólks á svæðinu með því að dreifa mikilvægum hjálpargögnum á borð við hreinlætispakka, nauðsynleg lyf og sjúkragögn og föt fyrir börn.

„UNICEF í Líbíu vottar öllum þeim sem misstu ástvini og fjölskyldu í hamförunum í austurhluta Líbíu sína dýpstu samúð. Við erum í viðbragðsstöðu og reiðubúin að liðsinna björgunaraðilum og erum í góðu sambandi við viðeigandi yfirvöld,“ segir Michele Servadei, fulltrúi UNICEF í Líbíu.

Stuðningur þinn skiptir máli
Þegar hamfarir verða eru börn ávallt meðal viðkvæmustu hópa þolenda. UNICEF er ávallt í viðbragðsstöðu og kemur fyrir hjálpar- og neyðargögnum fyrir þau sem þurfa á að halda. Meðal annars hreinu vatni, heilbrigðisaðstoð, næringu, barnavernd og sálrænum stuðning.

Með framlagi þínu í neyðarsjóð UNICEF leggur þú þitt af mörkum til að tryggja að hægt sé að bregðast skjótt við neyðaraðstæðum og koma börnum og fjölskyldum á hamfarasvæðum til aðstoðar. Þinn stuðningur skiptir máli í þágu barna.

Til að styrkja neyðarsjóð UNICEF getur þú:

Sent SMS-ið: UNICEF í númerið 1900 (2.900 kr).

Gefið frjáls framlög á söfnunarreikning: 701-26-102020 Kennitala: 481203-2950

Gefið frjáls framlög í AUR-appinu í númerið: 123 789 6262

Fleiri
fréttir

20. nóvember 2024

UNICEF: Framtíð barnæskunnar hangir á bláþræði í breyttum heimi 
Lesa meira

20. nóvember 2024

Ungmenni fá orðið á Alþjóðadegi barna: „Kæra fullorðna fólk– Hlustið á okkur“
Lesa meira

18. nóvember 2024

Þúsund dagar af stríði í Úkraínu: 16 börn drepin eða særð í hverri viku
Lesa meira
Fara í fréttasafn