04. nóvember 2024

UNICEF fordæmir blóðuga helgi í Norður-Gaza

Minnst 50 börn drepin í Jabalia eftir loftárásir á byggingar sem hýstu hundruð einstaklinga – Skotið á bifreið starfsmanns UNICEF

Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, gagnrýnir harðlega í yfirlýsingu árásir á tvær byggingar í bænum Jabalia í Norður-Gaza um helgina þar sem minnst 50 börn voru drepin. Hundruð einstaklinga höfðu leitað skjóls í byggingunum sem voru jafnaðar við jörðu í árásunum. Á laugardag var síðan skotið á einkabifreið starfsmanns UNICEF sem starfar við bólusetningarherferð UNICEF og WHO á sama svæði. Bifreiðin skemmdist en starfsmanninn sakaði ekki, en hún var skiljanlega í miklu áfalli.

„Á sama tíma særðust að minnsta kosti þrjú börn í annarri árás í námunda við bólusetningarmiðstöð í Sheikh Radwan þar sem bólusetningar gegn mænusótt voru hafnar. Þessar árásir í Jabalia, á bólusetningarmiðstöðin og á starfsmann UNICEF eru enn eitt dæmið um alvarlegar afleiðingar árása á almenna borgara á Gaza-ströndinni. Í ofanálag við fyrri árásir á börn í Norður-Gaza er þetta enn einn ljótur kaflinn í þessu hræðilega stríði,“ segir Russell.

„Almenna borgara, innviði eins og íbúðabyggingar sem og starfsfólk mannúðarstofnana verður að vernda í samræmi við alþjóðleg mannúðarlög. Fólksflótti og rýmingarskipanir gefa engum leyfi til að líta á alla einstaklinga eða hluti sem hernaðarskotmörk. Né leysir það viðkomandi undan þeirri skyldu sinni að gera greinarmun á hernaðarlegum markmiðum og almenningi og gera nauðsynlegar varúðarráðstafanir í öllum sínum árásum.“

„Samt sem áður eru þessi grundvallarlögmál ítrekað hunsuð með þeim afleiðingum að tugþúsundir barna hafa látið lífið og særst og þau svipt nauðsynlegri þjónustu. Árásum á almenna borgara, þar á meðal starfsfólk mannúðarstofnana og það sem eftir stendur af borgaralegum innviðum Gaza verður að linna. Hver einasti einstaklingur í Norður-Gaza, sérstaklega börn, eru í bráðri lífshættu vegna árása, sjúkdóma og hungursneyðar.“

„UNICEF krefst þess að Ísraelsmenn hefji tafarlaust rannsókn á tildrögum árásarinnar á starfsmann sinn og að gripið verði til aðgerða gagnvart þeim sem bera ábyrgð á. UNICEF kallar sömuleiðis eftir því að aðildarríki Sameinuðu þjóðanna noti áhrif sín til að tryggja að alþjóðalög séu virt með það í forgangi að vernda börn. Það er löngu tímabært að þessu stríði ljúki.“

Fleiri
fréttir

20. nóvember 2024

UNICEF: Framtíð barnæskunnar hangir á bláþræði í breyttum heimi 
Lesa meira

20. nóvember 2024

Ungmenni fá orðið á Alþjóðadegi barna: „Kæra fullorðna fólk– Hlustið á okkur“
Lesa meira

18. nóvember 2024

Þúsund dagar af stríði í Úkraínu: 16 börn drepin eða særð í hverri viku
Lesa meira
Fara í fréttasafn