13. maí 2024

UNICEF bregst við mannskæðum hamfaraflóðum í Afganistan

Minnst 50 börn látin og þúsundir heimila ónýt

Minnst 300 eru látin, þar af rúmlega 50 börn, eftir skyndiflóð í norðausturhluta Afganistan um helgina. UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, brást þegar í stað við hamförunum með dreifingu hjálpargagna á  flóðasvæðum.

Samkvæmt nýjustu fregnum varð íbúðabyggð í Baghlan-héraði verst út þar sem þrjú þúsund heimili eru gjörónýt, búsifjar urðu á ræktarlandi og búfénaði auk þess sem skólum og heilbrigðismiðstöðvum þurfti að loka. Í Takhar og Badakhshan-héruðum varð sömuleiðis tjón þar sem tilkynnt hafði verið um skemmdir á rúmlega 300 húsum.

Dr. Tajudeen Oyewala, fulltrúi UNICEF í Afganistan, segir að UNICEF og samstarfsaðilar hafi þegar í stað verið komin á vettvang að veita nauðstöddum mannúðaraðstoð. Dreift hefur verið hreinlætisvörum, hlýjum fatnaði og teppum, færanlegar heilsugæslur og næringarteymi send á vettvang auk þess sem teymi UNICEF vinnur að því að meta aðstæður og umfang neyðarinnar.

„Þessi mikla úrkoma og flóð sem fylgdu í kjölfarið hafa raskað og ógnað nú lífi barna í þessum héruðum. Nú þegar fjölskyldur takast á við sorg og missi er forgangsatriði að tryggja aðgengi þeirra að hreinu vatni, heilbrigðisþjónustu og sálfélagslegum stuðningi og vernd. Eins og alltaf stendur UNICEF með börnum og öðrum íbúum Afganistan á þessum erfiðu tímum,“ segir Oyewala í tilkynningu UNICEF.

Afganistan er á lista yfir 10 berskjölduðustu ríki heims gagnvart áhrifum loftslagsbreytinga og þar hafa veðuröfgar og hamfarir færst í aukana, eins og flóð, þurrkar og sandstormar með tilheyrandi skaðlegum áhrifum á innviði, velferð og afkomu íbúa.

Þegar þú ert Heimsforeldri gerir mánaðarlegur stuðningur þinn UINCEF kleift að bregðast við þegar neyðarástand skapast um allan heim. Komdu í hóp Heimsforeldra UNICEF í dag.

Fleiri
fréttir

29. október 2024

„Ólýsanlegur hryllingur“ fyrir börn í Súdan
Lesa meira

24. október 2024

85% barna sem fengu mænusótt í fyrra búa á átakasvæðum
Lesa meira

14. október 2024

„Börn hefja engin stríð“
Lesa meira
Fara í fréttasafn