07. október 2024

UNICEF afhenti 1.4 milljón skammta af kólerubóluefni í Súdan

Útbreiðsla sjúkdóma ógnar lífi milljóna í hinu stríðshrjáða ríki

 Khattab Obaid, heilbrigðisstarfsmaður UNICEF í Súdan, fer yfir bóluefnasendinguna í Port Sudan um helgina um borð í kæliflutningabíl áður en bóluefnin fara til Kassala, Gedaref og Níl. Mynd/ UNICEF Elfatih

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, flutti um helgina 1.4 milljón skammta af bóluefni gegn kóleru til Súdan sem ætlað er að verja börn gegn faraldri sem geisar þar víðs vegar um landið.

Frá því að yfirstandandi kólerufaraldur hófst í hinu stríðshrjáða ríki í júlí síðastliðnum hafa 18 þúsund tilfelli komið upp og rekja má 550 dauðsföll til hans í 10 héruðum.

Bóluefnasendingin nú er viðbót við þá rúmlega 400 þúsund skammta sem UNICEF afhenti í síðasta mánuði og verður notuð í yfirstandandi bóluefnaherferðum í Súdan. Markmið herferðarinnar er að bólusetja ríflega 1.8 milljón einstaklinga gegn kóleru í þeim héruðum sem verst hafa orðið úti í faraldrinum, Gedaref, Kassala og Níl.

Auk kóleru eru íbúar 12 héraða að glíma við útbreiðslu sjúkdóma á borð við beinbrunasótt, malaríu og mislinga. Í síðustu viku afhenti UNICEF nærri 190 þúsund skammta af bóluefni gegn malaríu í Súdan.

„Í ofanálag við stríðsátök, gríðarlegan fólksflótta og hungursneyð er útbreiðsla þessara sjúkdóma enn eitt áfallið fyrir börn í Súdan,“ segir Sheldon Yett, fulltrúi UNICEF í Súdan. „Það að koma þessum bóluefnum til almennings er lífsnauðsynlegt til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu og mun bjarga lífum.“

Verulega laskað heilbrigðiskerfi Súdan er ekki í stakk búið til að takast á við umfangsmikinn sjúkdómsfaraldur og vannærð börn eru sérstaklega berskjölduð gagnvart hvers kyns smitsjúkdómum. Og sú staðreynd að hvergi í veröldinni eru fleiri börn á flótta en í Súdan og halda til í yfirfullum búðum fyrir flóttafólk þar sem smitleiðir eru greiðar og hreinlætisaðstöðu verulega ábótavant þá er ljóst að bólusetning er besta vörnin.

Neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi fyrir börn í Súdan.

Fleiri
fréttir

20. nóvember 2024

UNICEF: Framtíð barnæskunnar hangir á bláþræði í breyttum heimi 
Lesa meira

20. nóvember 2024

Ungmenni fá orðið á Alþjóðadegi barna: „Kæra fullorðna fólk– Hlustið á okkur“
Lesa meira

18. nóvember 2024

Þúsund dagar af stríði í Úkraínu: 16 börn drepin eða særð í hverri viku
Lesa meira
Fara í fréttasafn