Ungmennaráð UNICEF á Íslandi stóð fyrir fundi í Hörpu í gær, þann 2. nóvember, þar sem samankomin voru fulltrúar ungmennaráða Barnvænna sveitarfélaga hér á landi. Umræðuefni fundarins voru loftslagsmál, hvaða áhrif þau hafa á réttindi barna og hvaða lausnir eru sjáanlegar fyrir stjórnvöld til að bregðast við.
Ungmennaráð Barnvænna sveitarfélaga eru nú 23 talsins víðs vegar um landið en ríflega 50% grunnskólabarna búa nú í sveitarfélögum sem ýmist eru að vinna að því að verða eða eru orðin Barnvæn Sveitarfélög.
Á fundi ungmennanna hélt Finnur Ricart Andrason, forseti Ungra umhverfissinna, erindi fyrir fullum sal 64 fulltrúa ungmennaráðanna þar sem hann fór yfir stöðu mála og veitti hinum ungu eldhugum innblástur fyrir komandi verkefni.
Við tók svo hópvinna ungmennanna þar sem unnið var út frá nokkrum lykilspurningum sem þau leituðust við að svara.
- Hvaða áhrif hafa loftslagsmál á réttindi barna í heiminum?
- Hvað eru sveitarfélögin að gera vel þegar kemur að loftslagsmálum og hvar gætu þau gert betur?
- Hvaða lausnir sjáum við til staðar í loftslagsmálum?
- Hvernig getum við sem hópur náð til stjórnvalda og sveitarfélaga?
Reyndist fundurinn kjörinn vettvangur til að efla samtakamátt ungmennaráðanna og styrkja tengsl þeirra á milli. Á fundinum varð til starfshópur sem falið var það verkefni að vinna að ályktun frá fundinum sem afhent verður stjórnendum sveitarfélaga og stjórnvöldum með það að markmiði að þrýsta á um raunverulegar aðgerðir í loftslagsmálum. Ákall þetta verður sent út á Alþjóðadegi barna þann 20. nóvember næstkomandi.
Hér fyrir neðan fylgja nokkrar myndir frá viðburðinum í gær.