20. nóvember 2023

Ungmennaráð 23 sveitarfélaga sameinast í ákalli um aðgerðir í loftslagsmálum

„Í dag, á Alþjóðadegi barna, viljum við deila því hvað okkur finnst og hvað stjórnvöld skulu gera til þess að tryggja okkur bjarta framtíð.   “

Frá ráðstefnu ungmennaráðanna í Hörpu þann 2. nóvember síðastliðinn. Mynd/UNICEF

Þann 2. nóvember síðastliðinn stóð Ungmennaráð UNICEF á Íslandi fyrir ráðstefnu um loftslagsmál í Hörpunni fyrir Ungmennaráð barnvænna sveitarfélaga. Þarna fengu ungmennin tækifæri til þess að hittast og leggja á ráðin, skemmtilegar og mikilvægar umræður sköpuðust og ljóst er að loftslagsmálin eru mikil hjartans mál fyrir ungmenni. Ráðstefnan byrjaði á erindi frá Finni Ricart Andrasyni, forseta Ungra Umhverfissinna, en eftir það var farið í umræðuhópa þar sem ungmenni ræddu sín á milli hvernig þau gætu haft áhrif. Í dag, á Alþjóðadegi barna, viljum við deila því hvað okkur finnst og hvað stjórnvöld skulu gera til þess að tryggja okkur bjarta framtíð.   

Framræst eða raskað votlendi er stór hluti af losun Íslands á gróðurhúsalofttegundum. Votlendi er búsvæði margra dýrategunda líkt til dæmis mófugla, margra skordýra og þar finnast einnig margar plöntutegundir, því eru votlendi mikilvægur þáttur í því að tryggja líffræðilegan fjölbreytileika. Auk þess geymir votlendið mikinn kolefnisforða sem án þess færi beint út í andrúmsloftið. Allt of mörg dæmi eru um það að framræst votlendi sé ekki í notkun, það er það votlendi sem að verður að endurheimta. Með endurheimtingu votlendis vonumst við til þess að losun gróðurhúsalofttegunda minnki og lífverur geti snúið aftur til síns heima og með því aukið líffræðilegan fjölbreytileika. Ef endurheimting votlendis heppnast vel endurheimtir það sína fyrrum kolefnisgeymslu og vonandi meira til. Ef þetta yrði gert myndi losun gróðurhúsalofttegunda dragast saman og með því færi hlýnun jarðar minnkandi sem eykur lífsgæði barna og fólks almennt. Til viðbótar við að endurheimta það votlendi sem hefur verið raskað er nauðsynlegt að vernda það votlendi sem er enn í sínu náttúrulega ástandi.

Almenningssamgöngur er eitthvað sem flest börn á Íslandi nota, það er almennt hentugt að nota þær víðast á höfuðborgarsvæðinu, en fyrir þau sem búa utan þess eru almenningssamgöngur oft mun verri og oft getur reynst erfitt að ferðast á milli staða. Mikilvægt er að hafa góðar almenningssamgöngur til þess að tryggja það að börn komist auðveldlega á milli staða. Í 2. grein Barnasáttmálans segir að öll börn skuli vera jöfn, það er ljóst að sums staðar á landinu eru almenningssamgöngur góðar en  annars staðar virkilega slæmar og því er ljóst að í þeim málum, eins og svo mörgum öðrum, er staðan ekki sú að öll börn séu jöfn. Stjórnvöld skulu tryggja að fólk, hvaðan sem er á landinu, hafi greiðan aðgang að góðum almenningssamgöngum enda er það mun umhverfisvænni ferðamáti en þegar að öll sitja ein í sínum eigin bílnum. 

Börn eiga, samkvæmt 12. grein Barnasáttmálans, rétt á því að tjá sig um þau málefni sem þau varðar og fullorðnum er skylt að hlusta á þau og taka mark á þeim. Til þess að börn geti myndað sér skoðun er mikilvægt að þau fái til þess réttar og góðar upplýsingar sem þau geta skilið. 17. grein Barnasáttmálans tryggir þann rétt og undirstrikar mikilvægi þess að stjórnvöld tryggi það að börn hafi aðgang að upplýsingum sem henta þeim til þess að þau geti myndað sér skoðun á hinum ýmsu málefnum. Þegar að við stöndum frammi fyrir vandamáli jafn stóru og alvarlegu og loftslagskrísunni er mikilvægt að börn séu upplýst um vandamálið til þess að þau geti raunverulega myndað sér skoðun og barist sjálf fyrir betri framtíð. Því er virkilega mikilvægt að stjórnvöld tryggi aukna fræðslu til allra barna um loftslagsmál og þeim áskorunum sem að við stöndum frammi fyrir tengdum þeim. Börn eiga rétt á því að geta myndað sér skoðun og lögum samkvæmt er stjórnvöldum skylt að tryggja það. Við viljum að stjórnvöld tryggi það að öll börn fái góða og reglulega fræðslu um loftslagsmál sem hentar þeirra aldri og þroska. Auk þess skulu öll þau sem vinna með börnum fá reglulega fræðslu um loftslagsmál til að tryggja það að þau séu meðvituð um vandamálið og geti svarað þeim spurningum sem börn kunna að geta haft.

Því skorum við, Ungmennaráð UNICEF á Íslandi og öll ungmennaráð barnvænna sveitarfélaga, á stjórnvöld að bregðast betur við loftslagskrísunni. Stjórnvöldum er skylt að vernda börn og gera það sem er þeim fyrir bestu. Við skorum á stjórnvöld að leggja áherslu á endurheimtingu og verndun votlendis, tryggja aðgengi að almenningssamgöngum og stórauka fræðslu til barna um loftslagsmál. Við skorum á stjórnvöld að virða Barnasáttmálann og grípa tafarlaust til aðgerða gegn loftslagskrísunni svo hægt sé að tryggja öllum börnum bjarta framtíð.

Ungmennaráð UNICEF á Íslandi

Ungmennaráð Akraness

Ungmennaráð Akureyrar

Ungmennaráð Borgarbyggðar

Ungmennaráð Fjarðabyggðar

Ungmennaráð Garðabæjar

Ungmennaráð Grundarfjarðar

Ungmennaráð Hafnarfjarðar

Ungmennaráð Hornafjarðar

Ungmennaráð Hrunamannahrepps

Ungmennaráð Hvalfjarðarsveitar

Ungmennaráð Húnaþings

Ungmennaráð Kópavogs

Ungmennaráð Mosfellsbæjar

Ungmennaráð Múlaþings

Ungmennaráð Rangárþings

Ungmennaráð Reykjanesbæjar

Ungmennaráð Seltjarnarness

Ungmennaráð Skagastrandar

Ungmennaráð Strandabyggðar

Ungmennaráð Svalbarðsstrandarhrepps

Ungmennaráð Voga

Ungmennaráð Vopnafjarðar

Ungmennaráð Ölfuss

Fleiri
fréttir

20. nóvember 2024

UNICEF: Framtíð barnæskunnar hangir á bláþræði í breyttum heimi 
Lesa meira

20. nóvember 2024

Ungmenni fá orðið á Alþjóðadegi barna: „Kæra fullorðna fólk– Hlustið á okkur“
Lesa meira

18. nóvember 2024

Þúsund dagar af stríði í Úkraínu: 16 börn drepin eða særð í hverri viku
Lesa meira
Fara í fréttasafn