Að gefnu tilefni minna Barnaheill – Save the Children á Íslandi og UNICEF á Íslandi á Almenn viðmið um opinbera umfjöllun um börn sem samtökin gáfu út í samstarfi við Fjölmiðlanefnd, Heimili og skóla, SAFT og Umboðsmann barna árið 2017. Viðmiðunum er ætlað að styrkja fjölmiðla í að þjóna almannahlutverki sínu með réttindi barna að leiðarljósi. Mikilvægt er að tryggja vandaða og uppbyggilega umfjöllun um málefni barna í fjölmiðlum, ásamt því að stuðla að þátttöku þeirra í samfélagsumræðu. Börn hafa rétt til að tjá sig um málefni sem varða þau og ber að árétta að þessum viðmiðum er ekki ætlað að takmarka tjáningarfrelsi barna á nokkurn hátt. Þeim er fyrst og fremst ætlað að stuðla að því að öryggi þeirra og velferðar sé gætt í hvívetna þegar um þau er fjallað eða þegar börn taka sjálf þátt í almennri umfjöllun.
Bendum við sérstaklega á viðmið 3 og 4:
3. Áður en umfjöllun er birt skal meta hvaða áhrif hún getur haft fyrir barnið og tryggja að hagsmunir þess séu hafðir að leiðarljósi. Þrátt fyrir að umfjöllun varði ekki beinlínis barnið sjálft, heldur aðra sem því tengjast, skal meta áhrif birtingarinnar á líðan, orðspor og hagsmuni barnsins, óháð samþykki forsjáraðila.
4. Ef umfjöllun getur talist viðkvæm eða meiðandi fyrir barn skal ganga úr skugga um að ekkert komi fram í henni sem væri hægt að rekja til barnsins eða fjölskyldu þess. Þetta á sérstaklega við þegar grunur er um að barn hafi brotið af sér eða brotið hafi verið gegn því.