22. apríl 2022

Missti málið eftir sprengjuregn í Mariupol

Hinn fimm ára gamli Arthur flúði ásamt móður sinni eftir nokkrar vikur af árásum –Hefur glatað brosi sínu og máli –Umfangsmikið hjálparstarf UNICEF

Arthur (5) og móðir hans Miranda (23) takast nú á við áföll stríðsins.

 Þetta er hinn fimm ára gamli Arthur og móðir hans Miranda frá Mariupol í Úkraínu. Borgin er gjöreyðilögð eftir loftárásir síðustu vikna og Miranda minnist upphafsdaga árásanna með hrylling þar sem hún þurfti að skýla Arthur fyrir sprengingunum.

„Mér leið eins og höggbylgjurnar frá sprengjunum myndu feykja mér í burtu. Mér leið eins og hendurnar myndu rifna af þegar ég hélt í handrið á stigagangi þar sem við földum okkur,“ rifjar hún upp. „Við höfðum ekkert rafmagn, ekkert vatn, gas, hita eða fjarskiptasamband. Ekkert brauð né lyf.“

Í Mariupol var daglegur matarskammtur Arthurs glas af vatni og brot úr smáköku. Þau leituðu skjóls í leikhúsi í tvær vikur en þegar mæðginin náðu loks að flýja borgina var Arthur örmagna og illa haldinn. Áfall stríðsátakanna gerðu það að verkum að hann hefur misst málið og er hættur að brosa.

 

Mæður og börn fá aðstoð á þessu barnvæna svæði UNICEF, s.k. Bláa punkti, á landamærum Rúmeníu.
Umfangsmikil aðstoð UNICEF við erfiðar aðstæður 

UNICEF og samstarfsaðilar í Úkraínu og nágrannaríkjum gera allt sem í þeirra valdi stendur til að veita börnum eins og Arthur stuðning og nauðsynlega mannúðaraðstoð við afar krefjandi aðstæður. UNICEF hafði fyrir átökin verið á vettvangi í austurhluta Úkraínu í átta ár. Síðan átök hófust 24. febrúar síðastliðinn hefur UNICEF og samstarfsaðilar:

  • Dreift nauðsynlegum heilbrigðis- og sjúkragögnum til nærri 820 þúsund barna og fjölskyldna á stríðshrjáðum svæðum víðs vegar um Úkraínu.
  •  Dreift hreinu vatni og hreinlætisvörum til yfir 300 þúsund manns.
  • Dreift námsgögnum til yfir 59 þúsund barna og komið að formlegri og óformlegri menntun 65 þúsund barna og veitt yfir 5.500 börnum sálræna aðstoð og félagsráðgjöf.
  • UNICEF hefur náð til margra af verst stöddu svæða landsins, til dæmis Bucha og Irpin með neyðargögn til yfir 200 þúsund manns og útvegað íbúum Vyshhorod varaaflsstöð til að halda rafmagni á.
  • Skráð yfir 70 þúsund heimili þar sem börn með fötlun eða sértækar þarfir í fjárstuðningsáætlun UNICEF og félagsmálayfirvalda í Úkraínu og víðar.
  • Á 19 barnvænum svæðum UNICEF og Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, svokölluðum Bláum punktum (e. Blue Dots) sem sett hafa verið upp í Rúmeníu, Moldóva, Póllandi og Búlgaríu hafa 33 þúsund manns fengið nauðsynlega þjónustu, þar af fylgdarlaus börn, börn sem orðið hafa fyrir kynbundnu ofbeldi, fötluð börnum og börn sem ekki hefur verið hægt að bera kennsl á. 31 svæði sem þessi verða sett upp í Búlgaríu, Ungverjalandi, Ítalíu, Moldóva, Póllandi, Rúmeníu og Slóvakíu.

Þetta er aðeins brot af því umfangsmikla starfi sem UNICEF sinnir vegna ástandsins í Úkraínu. En til að ná til barna og fórnarlamba stríðsátaka þarf á stuðningi almennings að halda.

Þú getur skráð þig sem Heimsforeldri UNICEF til að styðja við bakið á starfi UNICEF í þágu réttinda barna í og við Úkraínu sem og um allan heim í dag.

Þú getur lagt þitt af mörkum í neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi vegna Úkraínu hér.

Þinn stuðningur skiptir máli.

Fleiri
fréttir

20. nóvember 2024

UNICEF: Framtíð barnæskunnar hangir á bláþræði í breyttum heimi 
Lesa meira

20. nóvember 2024

Ungmenni fá orðið á Alþjóðadegi barna: „Kæra fullorðna fólk– Hlustið á okkur“
Lesa meira

18. nóvember 2024

Þúsund dagar af stríði í Úkraínu: 16 börn drepin eða særð í hverri viku
Lesa meira
Fara í fréttasafn