Í dag eru tvö ár síðan innrás Rússa í Úkraínu hófst og enn sér ekki fyrir endann á þeim skelfilegu átökum sem kostað hafa þúsundir einstaklinga lífið, þar af mörg hundruð börn, og skilið eftir slóð eyðileggingar í landinu. Linnulausar árásir og flótti hefur tekið sinn toll á íbúum og börnum í Úkraínu. UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, áætlar að börn í borgum þar sem átökin hafa verið hvað hörðust hafi á þessum tíma þurft að verja á bilinu 3-5 þúsund klukkustundum neðanjarðar í skjóli. Það jafngildir nærri sjö mánuðum, með tilheyrandi afleiðingum ekki á aðeins andlega og líkamlega heilsu þeirra, heldur einnig grundvallarréttindi.
Staðið vörð um réttindi barna frá byrjun
UNICEF hefur verið til staðar í Úkraínu frá upphafi innrásarinnar og gott betur. Ekki aðeins á vettvangi heldur einnig við landamærin og í nágrannaríkjunum þangað sem hundruð þúsunda hafa flúið undan sprengjuregni og stríðsátökum. UNICEF hefur á þessum tíma aukið starfsemi sína innan Úkraínu og er nú í Kyiv, Lviv, Odesa, Dnipro, Poltava, Mykolaiv og Kharkiv að veita mannúðaraðstoð og fjölskyldum og börnum nauðsynlegan stuðning.
Í Úkraínu hefur UNICEF einbeitt sér að heilbrigðisþjónustu, bólusetningum, næringarmálum, barnavernd, menntun, dreifingu á hreinu vatni og hreinlætisvörum, félagsþjónustu og sálfélagslegum stuðningi. Í nágrannaríkjum vinnur UNICEF með stjórnvöldum á öllum stigum og samstarfsaðilum við að styrkja innviði félagskerfis viðkomandi ríkja svo hægt sé að veita börnum á flótta og jaðarsettum hópum gæðamenntun, heilbrigðis- og félagsþjónustu.
Bara á síðasta ári innan Úkraínu tryggði UNICEF:
- Aðgengi 1,3 milljóna barna að formlegri og óformlegri menntun.
- 2,5 milljónum barna og forráðamanna aðgengi að sálrænum stuðningi og sálfélagslegri þjónustu.
- 5,5 milljónum einstaklinga öruggt drykkjarvatn og til heimilisnota.
- Aðgengi 5 milljóna barna og kvenna að grunnheilbrigðisþjónustu.
Í ríkjum sem tekið hafa á móti fólki sem flúið hefur Úkraínu hefur UNICEF:
- Veitt rúmlega 1.250 þúsund börnum aðgengi að formlegri og óformlegri menntun.
- Veitt 1,3 milljónum barna og forráðamanna aðgengi að sálrænum stuðningi og sálfélagslegri þjónustu.
- Styrkt 97 þúsund heimili með beinum peningastyrkjum, bæði í gegnum verkefni sem fjármögnuð eru af UNICEF og með tæknilegri aðstoð við opinber verkefni stjórnvalda.
- Veitt 25 þúsund manns drykkjarvatn og til heimilisnota og yfir 100 þúsund einstaklingum hreinlætishjálpargögn (s.k. WASH- gögn).
- Veitt 346 þúsund börnum og konum aðgengi að grunnheilbrigðisþjónustu.
- Sinnt fræðslu og forvörnum varðandi ofbeldi og veitt aðgengi að þjónustu á borð við félagsþjónustu, heilbrigðisþjónustu, næringu, menntun til rúmlega 23 milljóna einstaklinga.
Sögulegur stuðningur við neyðarsöfnunina á Íslandi
Frá upphafi innrásar 2022 hefur UNICEF á Íslandi staðið fyrir neyðarsöfnun vegna þessara og ótal fleiri verkefna UNICEF í Úkraínu og nágrannaríkjum. Árið 2022 var neyðarsöfnun okkar vegna Úkraínu orðin stærsta einstaka neyðarsöfnun í nærri 20 ára sögu landsnefndar UNICEF á Íslandi. Það er því óhætt að segja að stuðningur almennings og fyrirtækja á Íslandi við neyð barna í Úkraínu hafi verið sögulegur og eftir honum tekið langt út fyrir landsteinana.
Í dag hafa rúmlega 189,3 milljónir íslenskra króna safnast í neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi vegna Úkraínu á þessum tveimur árum sem liðin eru frá innrásinni og stendur söfnunin enn yfir.
Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi:
„Á þessum hryggilegu tímamótum stríðsins ber að ítreka þakkir fyrir sögulegan stuðning almennings og fyrirtækja hér á landi við verkefni UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, í þágu barna við þessar skelfilegu aðstæður. Því miður lítur ekki út fyrir að stríðinu ljúki í nánustu framtíð og þörfin mun halda áfram að vera til staðar. Starf UNICEF í Úkraínu heldur áfram og neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi sömuleiðis. Við gefumst aldrei upp í yfirlýstu markmiði okkar að tryggja réttindi allra barna. Það sem börn í Úkraínu þurfa, líkt öll börn um allan heim sem búa við stríð og ógnir, er fyrst og fremst friður. “