18. nóvember 2024

Þúsund dagar af stríði í Úkraínu: 16 börn drepin eða særð í hverri viku

„Þetta stríð hefur tekið toll á börnum sem er í senn yfirþyrmandi og algjörlega óásættanlegur.“

Börn í Kharkiv stunda nám í neðanjarðarbyrgi. Mynd/ UNICEF/UNI575324/Filippov

Að minnsta kosti 2.046 börn hafa verið drepin eða særst síðan innrás Rússa hófst í Úkraínu fyrir nærri þúsund dögum. Það gera um 16 börn í hverri viku að meðaltali. Á þessum hryggilegu tímamótum hefur UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, tekið saman þau skelfilegu áhrif sem stríðið hefur haft á líf barna í Úkraínu.

Tala látinna barna nemur nú 659 börnum og 1.747 börn hafa særst í árásum en auk þess milljónir barna orðið fyrir margvíslegum skaðlegum áhrifum þessara átaka.

Í síðustu viku létu móðir og þrjú börn hennar lífið í árás á íbúðabyggingu í borginni Kryvyi Rih. Yngsta barnið var aðeins tveggja mánaða gamalt. Og nærri þúsund dagar séu nú síðan innrásin í Úkraínu hófst hafa börn í Donbas-héraði í austurhluta Úkraínu mátt lifa við átök og árásir í áratug.

Börn í Úkraínu búa við hættu af árásum, langvarandi flótta og vergang og alvarlegan skort á nauðsynjum. Harðnandi átök í Úkraínu síðan í júlí síðastliðnum hafa að auki kostað fleiri almenna borgara lífið og valdið enn meiri skemmdum á nauðsynlegum innviðum í landinu.

Yfirþyrmandi og óásættanlegt

„Þetta stríð hefur tekið toll á börnum sem er í senn yfirþyrmandi og algjörlega óásættanlegur. Börn hafa verið drepin þar sem þau sofa í rúmi sínu, á sjúkrahúsum, á leikvöllum og skilið ótal fjölskyldur eftir í molum eða breytt lífi þeirra til frambúðar vegna meiðsla sem þau hafa orðið fyrir,“ segir Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna.

„Milljónir barna lifa í stanslausum ótta og hafa að meðaltali varið sex klukkustundum á dag neðanjarðar til að leita skjóls. Þetta eru börn sem munu þurfa áframhaldandi og aukinn stuðning til að takast á við sálrænar afleiðingar þessa stríðs ef þær eiga ekki að fylgja þeim og komandi kynslóðum um ókomna tíð,“ segir Russell.

Frá því í ágúst 2024 hafa 170 þúsund einstaklingar neyðst til að flýja heimili sín í austurhluta Úkraínu, til viðbótar við þær nærri 3,6 milljónir sem eru enn á vergangi innan Úkraínu og þær 6,75 milljónir sem leitað hafa verndar utan landamæranna. Níu af hverjum tíu úkraínskum einstaklingum á flótta í Evrópu í dag, eru konur og börn.

Skólar og sjúkrahús skotmörk

Í framlínuhéruðum Úkraínu þarfnast þrjár milljónir einstaklinga hlýju, drykkjarvatns og heilbrigðisþjónustu þar sem skólar og sjúkrahús eru enn skotmörk árása. Síðastliðna þúsund daga hafa að minnsta kosti 1,496 menntastofnanir og 662 heilbrigðisstofnanir orðið fyrir skemmdum eða eyðilagðar samkvæmt tölum Sameinuðu þjóðanna.

„Skólar, sjúkrahús og borgaralegir innviðir eru meira en bara byggingar, þær eru líflína og táknmynd vonar um bata og þrautseigju barna. Börn Úkraínu verður að vernda fyrir hryllingi þessa stríðs og heimsbyggðin getur ekki setið hjá meðan þau þjást,“ segir Russell.


UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna er sem fyrr á vettvangi víðs vegar um Úkraínu að veita nauðsynlega aðstoð og stuðning til allra sem þurfa á að halda. UNICEF heldur áfram að kalla eftir því að alþjóðleg mannréttindalög verði virt og að börn og innviðir sem þeim eru mikilvægir njóti verndar.

Neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi fyrir börn í Úkraínu.

Fleiri
fréttir

20. nóvember 2024

UNICEF: Framtíð barnæskunnar hangir á bláþræði í breyttum heimi 
Lesa meira

20. nóvember 2024

Ungmenni fá orðið á Alþjóðadegi barna: „Kæra fullorðna fólk– Hlustið á okkur“
Lesa meira

18. nóvember 2024

Þúsund dagar af stríði í Úkraínu: 16 börn drepin eða særð í hverri viku
Lesa meira
Fara í fréttasafn