15. september 2023

Tæplega 300.000 börn á hamfarasvæðum Daníels í Líbíu

Talið er að tæplega 300.000 börn glími nú við afleiðingar stormsins Daníel í austurhluta Líbíu. Fjöldi barna og fjölskyldna sem þarfnast mannúðaraðstoðar eftir tjón á heimilum, sjúkrahúsum, skólum og fleiri inniviðum, fer vaxandi. Stormurinn olli gífurlegri eyðileggingu síðastliðinn sunnudag, þá sérstaklega í borgunum Al Bayda, Al Marj og í strandborginni Derna.

Rúmlega 5000 manns létu lífið í flóðum og afleiðingum stormsins og mikils fjölda er enn saknað. Að minnsta kosti 30 þúsund manns, sem eru nú á vergangi í Líbíu, halda til í skólum og öðrum stöðum og eru innlyksa.Að minnsta kosti þrjú sjúkrahús urðu fyrir barðinu á storminum og eru í það minnsta 10 heilsugæslustöðvar ónothæfar sökum eyðileggingar stormsins. 

Stormurinn og afleiðingar hans ógna heilsu og öryggi barna

Michele Servadei, fulltrúi UNICEF í Líbíu segir börn í Líbíu enn og aftur standa frammi fyrir miklum harmleik og óöryggi, í ofanálag við þá erfiðleika sem þau hafa mátt eiga við sökum áratugalangra átaka í landinu.  

„Forgangsverkefni okkar er að auka mannúðaraðstoð, einkum að útvega vatn og hreinlætisvörur, sálfélagslegan stuðning, sameina börn við fjölskyldur sínar og koma í veg fyrir vatnsborna sjúkdóma. Til að koma í veg fyrir stórslys megum við engan tíma missa,“ segir Servadei sem heimsækir nú svæðin sem urðu fyrir áhrifum flóðanna.  

„Við vitum að afleiðingar flóða eru oft banvænni fyrir börn og ungmenni sem viðkvæm eru fyrir vegna sjúkdóma, skorts á öruggu drykkjarvatni, vannæringu, röskun á námi og ofbeldi.“  

Líkt og Servadei segir, þá ógna flóðin í Líbíu heilsu og öryggi barna. Með aukinni hættu á óhreinu neysluvatni aukast líkurnar á niðurgangi og kóleru, ásamt ofþornunar og vannæringu. Samtímis eru börnin í viðkvæmri stöðu, sérstaklega ef þau hafa misst foreldra sína eða orðið viðskila við fjölskyldur sínar, útsettari fyrir ofbeldi og misnotkun.  

UNICEF virkjar mannúðaraðstoð í Líbíu

Frá árinu 1957 hefur UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna stutt börn í Líbíu og virkjað nauðsynlega mannúðaraðstoð þar í landi þegar þörf hefur krafist. UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna hefur til að mynda útvegað 1.100 hreinlætispakka og vatnshreinsunarefni, ásamt klæðnaði fyrir 500 börn.  

Áætlað er að þörf sé á að minnsta kosti 6,5 milljónum Bandaríkjadala til brýnna björgunaraðgerða í Líbíu til þess að styðja börn og fjölskyldur sem þurfa á mannúðaraðstoð að halda, sérstaklega í borgunum Al Bayda, Al Marj, Benghazi, Derna og öðrum svæðum sem hafa orðið fyrir áhrifum stormsins Daníel. Í forgangi er að tryggja öruggt drykkjarvatn, sjúkrabirgðir, færanlega heilbrigðisþjónustu, sálfélagslegan stuðning og fjölskyldusameiningu.  

Stuðningur þinn skiptir máli
Þegar hamfarir verða eru börn ávallt meðal viðkvæmustu hópa þolenda. UNICEF er ávallt í viðbragðsstöðu og kemur fyrir hjálpar- og neyðargögnum fyrir þau sem þurfa á að halda. Meðal annars hreinu vatni, heilbrigðisaðstoð, næringu, barnavernd og sálrænum stuðning. 

Með framlagi þínu í neyðarsjóð UNICEF leggur þú þitt af mörkum til að tryggja að hægt sé að bregðast skjótt við neyðaraðstæðum og koma börnum og fjölskyldum á hamfarasvæðum til aðstoðar. Þinn stuðningur skiptir máli í þágu barna. 

Til að styrkja neyðarsjóð UNICEF getur þú: 
Sent SMS-ið: UNICEF í númerið 1900 (2.900 kr). 
Gefið frjáls framlög á söfnunarreikning: 701-26-102020 Kennitala: 481203-2950 
Gefið frjáls framlög í AUR-appinu í númerið: 123 789 6262 

Fleiri
fréttir

20. nóvember 2024

UNICEF: Framtíð barnæskunnar hangir á bláþræði í breyttum heimi 
Lesa meira

20. nóvember 2024

Ungmenni fá orðið á Alþjóðadegi barna: „Kæra fullorðna fólk– Hlustið á okkur“
Lesa meira

18. nóvember 2024

Þúsund dagar af stríði í Úkraínu: 16 börn drepin eða særð í hverri viku
Lesa meira
Fara í fréttasafn