Þekking á réttindum barna er grundvöllur þess að réttindi barna séu virt og í tilefni af alþjóðadegi barna þann 20. nóvember gefa Menntamálastofnun og UNICEF á Íslandi út nýtt réttindafræðsluefni fyrir grunnskóla landsins sem ber heitið „Þekktu réttindi þín“. Íslensk stjórnvöld hafa undanfarin ár lagt ríkari áherslu á að vernda rétt barna á Íslandi. Það er jákvæð þróun og hefur UNICEF leitast við að vinna með stjórnvöldum og styðja. UNICEF styður m.a. við markmið stjórnvalda um barnvænt Ísland með verkefnunum Réttindaskólar og Barnvæn sveitarfélög þar sem áhersla er lögð á réttindafræðslu og að efla rétt barna í samræmi við markmið Barnasáttmálans.
Á sama tíma og aukin áhersla er á virðingu fyrir réttindum barna hefur fjölskyldum og fylgdarlausum börnum á flótta fjölgað á Íslandi. Þau sem taka á móti börnum sem sækja um alþjóðlega vernd hafa lagt vinnu í að gera það vel. Frá upphafi var þó ljóst að viðmið fyrir útlendinga eru ekki þau sömu og fyrir aðra. Skortur á menntun, mismunun innan skólakerfisins og heilbrigðiskerfisins, fátækt og vísun úr landi eru nokkrar birtingamyndir þess. Undanfarin ár hefur íslenska kerfið því þurft að horfast í augu við útlendingafordóma sína og nauðsyn þess að bæta þar úr.
Umræða um útlendingafordóma er sársaukafull. Það er erfitt að skilja hvers vegna gott samfélag gerir ljóta hluti og það er erfitt að líta í eigin barm. Tilhneigingin er því að sópa umræðunni undir teppið. Það er ýmist gert með því að fela sig á bak við lög og reglur eða það sem verra er; ótta gagnvart óskilgreindri ógn. Í umræðu sem þessari verða börnin að viðfangi fólks í forréttindastöðu. Þau hætta að eiga nöfn, sjálfsmynd, tilgang eða tækifæri og eru smættuð í fórnarlömb eða hættuleg fordæmi. Sagan er uppfull af dæmum um slíka afmennskun sem gerir fólki kleyft að taka slæmar ákvarðanir um líf annarra.
Í raun ætti umræðan að snúast um líf barna, skoðanir þeirra og tækifæri þeirra til að þroskast. Réttur þeirra til þess ætti að vera óumdeildur hér á landi. Barnasáttmálinn var lögfestur fyrir sjö árum síðan og gildir um öll börn sem hér eru, óháð uppruna. En þar virðist hnífurinn standa í kúnni. Eins og kemur fram í viðbótarskýrslu félagasamtaka til Barnaréttarnefndarinnar sem kynnt var á dögunum, þá hafa stjórnvöld ekki gert áætlanir um hvernig skuli virða réttindi barna samkvæmt Barnasáttmálanum. Mat á því sem barni er fyrir bestu hefur ekki verið skilgreint, starfsfólk fær hvorki nauðsynlega fræðslu né stuðning og of sjaldan er hlustað á börn. Það á ekki eingöngu við um börn á flótta, heldur líka mörg önnur börn sem þurfa á aðstoð að halda.
Stefnt er að því að gera Ísland að barnvænu landi. Það markmið mun ekki aðeins gagnast börnum, því samfélög sem hugsa vel um börn eru góð samfélög. Stefnumótun stjórnvalda á sviði réttinda barna lofar góðu, undirbúningur hefur átt sér stað við að styrkja stoðir barnaverndar og stefnt er að öflugri réttindafræðslu. Fyrir það eiga stjórnvöld mikið lof skilið. Enn á þó eftir að skýra stefnu stjórnvalda í málefnum barna af erlendum uppruna og tryggja rétt þeirra í samræmi við réttindi annarra barna. Þar til það er gert, getur Ísland vart talist barnvænt.
Eva Bjarnadóttir, sérfræðingur hjá UNICEF á Íslandi