Það er óhætt að segja að Góðgerðardagur Kársnesskóla í Kópavogi hafi heppnast vonum framar í ár. Síðastliðinn föstudag afhentu fulltrúar nemenda og skólans starfsfólki UNICEF á Íslandi 725 þúsund krónur sem renna í neyðarsöfnun UNICEF vegna Úkraínu.
Að sögn umsjónaraðila verkefnisins í Kársnesskóla hefur aldrei safnast jafnmikið á Góðgerðardegi skólans og nú. Góðgerðardagur Kársnesskóla er fjáröflunarverkefni til styrktar góðu málefni, börn hjálpa börnum. Nemendur skólans höfðu undirbúið margvísleg verkefni eins og að baka, leira, mála, smíða, sauma, æft leikrit, skipulagt þrautabrautir, markaði, uppákomur og skemmtun í samstarfi við Foreldrafélag Kársnesskóla svo úr varð mikil fjölskyldu- og hverfishátíð.
Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, og Ingibjörg Magnúsdóttir, fjáröflunarstjóri UNICEF á Íslandi, veittu styrknum viðtökur á föstudag og færðu öllum þeim sem að þessu glæsilega söfnunarverkefni komu hjartans þakkir fyrir frábæran árangur.
Birna og Ingibjörg sýndu viðstöddum einnig hjálpargagnið „Skóli í kassa“ sem inniheldur námsgögn sem nauðsynleg eru svo allt að 40 börn geti haldið skólagöngu sinni áfram við neyðaraðstæður. Til að setja söfnunarfjárhæð Kársnesskóla í samhengi þá dugar hún fyrir 28 slíkum kössum og þar með námsgögnum fyrir þúsund börn. Sannarlega glæsilegur árangur og færir starfsfólk UNICEF á Íslandi öllum þeim sem að Góðgerðardegi Kársnesskóla komu bestu þakkir fyrir framlagið.