08. september 2022

Saga Keku: Ég bið fyrir því að það rigni aldrei aftur     

Hamfaraflóðin í Pakistan höfðu skelfilegar afleiðingar á þriggja barna móður í Mirpur Khas.

„Ég bið fyrir því að það rigni aldrei aftur,“ segir Keku, 28 ára gömul þriggja barna móðir, sem býr nú í tjaldi sem tjaslað hefur verið saman úr plastpokum og bambusstönglum. Keku og börnin hennar misstu heimili sitt í hamfaraflóðunum sem urðu í Pakistan nýverið. Þeirra nýja heimili stendur á mjóum vegi sem umkringdur er vatni hvorum megin þaðan sem þau sjá rústir síns gamla heimilis.

„Það kom upp eldur í þorpinu í apríl síðastliðnum og við vorum varla farin að ná utan um tjónið vegna hans þegar rigningatímabilið hófst með látum. Þetta er í fyrsta skipti sem ég hef séð afleiðingar vatn gera illt verra í eldi.“

Keku segir að það hafi rignt í einn og hálfan mánuð og náð hápunkti með fjórum dögum af vægðarlausum monsúnrigningum. Á endanum þoldu veggir heimilis hennar og nágranna ekki álagið lengur og gáfu eftir. Hún gat aðeins horft á meðan heimili hennar skolaði í burtu.

„Við leituðum skjóls í skólabyggingu sem nú er farin líka. Svo hér erum við, sitjum bara eftir á þessum vegi.“

Það eina ætilega er smá chillipipar

Allar veraldlegar eigu fjölskyldunnar glötuðust í eldsvoðanum og rigningunum í kjölfarið. Keku hefur ekki efni á mat. Í umfjöllun UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, um Keku og fjölskyldu hennar kemur fram að hún sé með blöðrur í munninum af því að borða hráan chillipipar, sem var það eina ætilega sem hún náði að taka með sér þegar hún flúði.

„Ég maukaði smá chilli í kvöldmat í gær. Í morgun gaf dóttir mín mér smá jógúrt til að borða með því. Nágrönnum okkar tókst að bjarga nokkrum kúm. Mig svíður í munninn en ég verð að borða eitthvað.“

Gríðarstór landsvæði fóru á kaf á rigningatímabilinu í Pakistan. Keku hafði skömmu fyrir rigningarnar orðið fyrir miklu tjóni vegna eldsvoða. Mynd/UNICEF

Keku býr nú í tjaldinu ásamt tveimur af þremur börnum sínum. Fjögurra ára gömlum syni sínum Munesh og átta ára dóttur sinni Komal. Elsta dóttir hennar fékk inn hjá ættingjum.  

„Við áttum huggulegt lítið heimili, með klósetti. Núna er það eina sem við höfum aðgang að klósettin sem UNICEF setti upp. Mörgum konum líður ekki vel með að nota þessi klósett svo þær bíða annað hvort þar til það verður dimmt eða ganga lengst út á akur, sem er á kafi í vatni, svo engin sjái þær.

Hætta á margvíslegum sjúkdómum eykst

Hættan á vatnsbornum sjúkdómum á borð við kóleru, niðurgangi og malaríu eykst með hverjum deginum þar sem fólk neyðist til að drekka mengað vatn og svara kalli náttúrunnar úti í náttúrunni. Þá eru ótaldar hætturnar á moskítóbitum, snákum, öndunarfærasjúkdómum og öðru slíku. Neyð milljóna Pakistana er mikil eftir rigningatíðina sem var þrefalt á við landsmeðaltal síðustu þrjátíu ára. Það flæddi yfir þriðjung landsins og rúmlega 33 milljónir, þar af um helmingurinn börn, þurfa á neyðaraðstoð að halda.

Áður en UNICEF dreifði hreinlætispökkum, sem innihalda meðal annars dömubindi, þurftu konur eins og Keku og margar stúlkur að rífa föt sín og nota þegar þær fengu blæðingar. Keku og börnin hennar voru vatnslaus fyrstu dagana eftir að þau flúðu en eru nú að fá hreint og öruggt drykkjarvatn frá UNICEF.

„Okkur sárvantar mat, vatn og nauðsynjar. Hér eru engar viftur, það hreyfir ekki vind og moskítóflugur eru út um allt. Rigningin hefur eyðilagt allt. Ég vona heitt og innilega að það rigni aldrei aftur,“ segir Keku í miklu uppnámi. 

Þrátt fyrir að hafa glatað öllum sínum veraldlegu eigum þá neitar Keku að fara langt frá rústum heimili síns af ótta við að missa landskikann sinn ef þau flytja í burtu. Því hafast þau við í tjaldinu á veginum við erfiðar aðstæður.

„Ætli einhver muni byggja fyrir okkur hús?“ spyr Keku að lokum og horfir sorgmædd í átt að þeim stað þar sem heimili hennar eitt sinn stóð.

Fleiri
fréttir

20. nóvember 2024

UNICEF: Framtíð barnæskunnar hangir á bláþræði í breyttum heimi 
Lesa meira

20. nóvember 2024

Ungmenni fá orðið á Alþjóðadegi barna: „Kæra fullorðna fólk– Hlustið á okkur“
Lesa meira

18. nóvember 2024

Þúsund dagar af stríði í Úkraínu: 16 börn drepin eða særð í hverri viku
Lesa meira
Fara í fréttasafn