Leikhópurinn Fimbulvetur, í samstarfi við MurMur Productions, Tjarnarbíó og Tix.is gáfu alla innkomu af sýningu leikverksins Blóðuga kanínan þann 1. maí síðastliðinn. Í dag komu Guðmundur Ingi Þorvaldsson, leikstjóri sýningarinnar, og Sara Martí, framkvæmdastjóri Tjarnarbíó, og færðu UNICEF á Íslandi 518 þúsund krónur sem renna í neyðarsöfnun samtakanna vegna Úkraínu.
UNICEF á Íslandi færir öllum sem stóðu að sýningunni hjartans þakkir fyrir stuðninginn. En allir leikarar og aðstandendur sýningarinnar gáfu eftir sýningarlaun sín, leikhúsið gaf eftir sýningatekjur og miðasalinn gaf eftir sína söluprósentu til að tryggja að hver króna sem kom í kassann þetta kvöld rynni óskipt til málefnisins. Kærar þakkir.