09. janúar 2024

Samkennd

Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi skrifar um mikilvægi þess að sýna virkari samkennd með framtíðinni á nýju ári.

Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, skrifar

Hinn 10. desember síðastliðinn var þess minnst að 75 ár eru liðin frá því að allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti Mannréttindayfirlýsinguna. Yfirlýsingin markaði mikilvæg vatnaskil því hún er undirstaða allra alþjóðlegra mannréttindasáttmála sem hafa verið samþykktir síðan. Þessir sáttmálar eru allir gerðir til að undirstrika þá einföldu staðreynd að öll fæðumst við jöfn og eigum tilkall til þess að réttindi okkar til lífs og frelsis séu varin. Samningurinn um réttindi barna, sem er sá mannréttindasamningur sem flest ríki heimsins hafa undirritað, gengur svo langt að segja að óháð öllu því gildismati sem við getum hlaðið á fullorðið fólk og þeim réttindum sem við kunnum að svipta þau – þá eiga öll börn ávallt sömu órjúfanlegu réttindin. Öll börn.

Hvers vegna rifja ég þetta upp í pistli um samkennd?

Jú, vegna þess að það hefur ítrekað sýnt sig að við getum ekki treyst á samkenndina, því miður. Ef okkur sem mannkyni bæri gæfa og sómi til að sýna samkennd með jaðarsettum einstaklingum, með þeim sem brjóta af sér og með óvinum okkar þá þyrftum við kannski ekki að hafa alla þessa samninga til að passa upp á réttindi okkar. Þyrftum við sáttmála um að ekki megi fremja þjóðarmorð ef við kynnum að sýna meiri samkennd? Þyrftum við sáttmála um að börn sem eiga foreldra án kennitölu eða vegabréfs hafi rétt til að ganga í skóla?

Snýst ekki samkennd einmitt um að sjá mannhelgina í hverju og einu okkar.? Að segja: ég sé þig, ég legg mig fram um að skilja hlutskipti þitt og ég sýni þér skilning og virðingu. Ef ég hef á einhvern hátt meiri bjargir en þú, hvað varðar völd, áhrif, peninga og rödd, þá mun ég leggja mig fram um að bæta fyrir ranglætið svo að ég og þú, minn hópur og þinn hópur, börnin mín og börnin þín séu jafnrétthá.

Mannréttindayfirlýsingin og allir þeir sáttmálar, dómstólar og yfirlýsingar sem síðan hafa fylgt í kjölfarið spruttu upp úr aðstæðum og tímum þar sem samkennd mátti sín einskis, eftir hörmungaár seinni heimsstyrjaldarinnar. Við vísum í þessa sáttmála í dag þegar við sjáum brotið á lífi og mannhelgi fólks og sem betur fer höfum við þessa sáttmála, dómstóla og yfirlýsingar til að vísa í og fylgja eftir þegar samkenndin hverfur.

En besta vörnin byrjar alltaf heima. Réttindi fólks eru svívirt þegar nógu margir trúa því að það sé í lagi, þegar nógu mörg í okkar hópi missa samkenndina fyrir þeim sem tilheyra á einhvern hátt öðrum hópum og það verður réttlætanlegt að svipta fólk æru, heilsu, frelsi, tækifærinu til mannsæmandi lífs eða lífinu sjálfu. Þegar við hneykslumst og fordæmum réttindabrot sem framin eru úti í heimi eða af pólitískum andstæðingum okkar, hversu tilbúin erum við að horfast í augu við okkar eigin skort á samkennd gagnvart þeim sem búa okkur nærri í óþægilegri sambúð? Já, ég segi óþægilegri sambúð því við eigum yfirleitt ekki erfitt með að sýna þeim samkennd sem okkur semur við, fólkinu sem gerir ekkert á okkar hlut. Samkenndin er svo margslungin og svo dýrmæt því hún setur á okkur kröfur um skilning á hlutskipti fólks sem er okkur framandi.

Að því sögðu þá finnst mér þá finnst mér rétt að benda á hóp fólks sem á rétt á samkennd okkar með hlutskipti sínu þó enginn sé mannréttindasáttmálinn þar um. Þetta er fólkið sem við þekkjum sem börn í dag en munu senn vaxa úr grasi og erfa eftir okkur stórskemmd hýbýli. Það eru engar upplýsingar sem okkur vantar í dag um áhrif hegðunar okkar á jörðina og þá framtíð sem bíður handan við hornið ef við breytum ekki róttækt um stefnu og förum að setja met í samdrætti á losun - en ekki enn eitt metið í losun. Við búum í óþægilegri sambúð við framtíðina og við forðumst að horfast í augu við það. Við erum að neita framtíðinni um samkennd með aðgerðum og aðgerðaleysi okkar og gleymum okkur í forréttindum hins rétthærri, þess með röddina, áhrifin og peningana til að breyta málum og rétta ranglætið. Börn heimsins hafa verið að hrópa á réttlæti og aðgerðir um árabil, þau hafa skrópað í skóla, fjölmennt á fundi, talað við heimsleiðtoga en með litlum árangri til þessa, því miður.

Hvenær erum við tilbúin að segja við þau:  ég sé ykkur, ég legg mig fram um að skilja hlutskipti ykkar og ég sýni ykkur skilning og virðingu. Ég hef meiri bjargir en þið, hvað varðar völd, áhrif, peninga og rödd, og ég mun leggja mig fram um að bæta fyrir ranglætið svo að ég og þið, minn hópur og ykkar hópur, börnin mín og börnin ykkar séu jafnrétthá.

Ef einhverjir lesendur eiga eftir að strengja áramótaheit þá hvet ég þau til að ákveða að sýna virkari samkennd með framtíðinni á nýju ári.

Og þá þurfum við mögulega ekki að skrifa mannréttindasáttmála fyrir framtíðarkynslóðir.

Pistillinn var frumfluttur í þættinum Uppástand á Rás 1, þann 2. janúar 2024

Fleiri
fréttir

20. nóvember 2024

UNICEF: Framtíð barnæskunnar hangir á bláþræði í breyttum heimi 
Lesa meira

20. nóvember 2024

Ungmenni fá orðið á Alþjóðadegi barna: „Kæra fullorðna fólk– Hlustið á okkur“
Lesa meira

18. nóvember 2024

Þúsund dagar af stríði í Úkraínu: 16 börn drepin eða særð í hverri viku
Lesa meira
Fara í fréttasafn