28. september 2023

Múmínálfadagur UNICEF: Kórónaðu daginn í Kringlunni

Myndabás í Múmínumhverfi og föndurhorn fyrir börnin – Kynntu þér nýja ævintýralega skapandi áskriftarleið UNICEF og Múmín

UNICEF á Íslandi stendur fyrir ævintýralegum viðburði í Kringlunni um helgina þar sem boðið verður upp skemmtilega afþreyingu fyrir börn og gestir og gangandi geta kynnt sér nýja og skapandi áskriftarleið UNICEF og Múmín.  
 
Hvar?: Göngugötu Kringlunnar á 2. hæð fyrir framan verslun okkar góðu samstarfsaðila í Lindex, sem á næstu dögum munu einmitt kynna nýja Múmín-vetrarfatalínu sína. 

Hvenær?: Laugardaginn 30. september kl. 11:00 – 18:00 
og sunnudaginn 1. október kl. 12:00 – 17:00  

Hvað?: Boðið verður upp á myndbás þar sem gestir geta fengið mynd af sér í sannkölluðu Múmínumhverfi ásamt því að föndurhorn verður á staðnum þar sem börn geta útbúið sína eigin Múmín-kórónu.  

Kórónaðu daginn með UNICEF og Múmín í Kringlunni.  

Hvað er ævintýraferðalag UNICEF og Múmín? 

Múmín áskriftarleið UNICEF er unnin í samstarfi við Moomin Character Ltd. í Finnlandi og fékk UNICEF á Íslandi hönnunarteymið ÞYKJÓ og Ævar Þór Benediktsson, sendiherra UNICEF á Íslandi með sér í lið til að skapa upplifun fyrir börn og fjölskyldur þeirra sem byggir á grunngildunum um kærleika, umburðarlyndi, samkennd og ævintýri.  

Þegar þú skráir þig í ævintýraferðalagið færðu mánaðarlega sendan skemmtilegan glaðning frá Múmín og UNICEF. Múmínleikhús, karaktera, sögur og þroskandi leiki sem verða að frábærri skjálausri skemmtun fyrir skapandi fjölskyldur. Með því að skrá þig gerist þú Heimsforeldri UNICEF og fjárfestir þannig í framtíð, velferð og réttindum barna um allan heim. 

Af hverju Múmín? 

Ingibjörg Magnúsdóttir, fjáröflunarstjóri UNICEF á Íslandi, segir að markmið verkefnisins sé þríþætt, það er að hvetja börn til að leika sér, virkja ímyndunarafl og sköpunarkraft þeirra sem leika með Múmín ævintýrið, og skapa skjálausan gæðatíma fyrir alla fjölskylduna.  

„Múmíndalur er staður þar sem kærleikur ríkir, öryggi, samþykki og vinátta. Hurðin að Múmínhúsinu er ávallt opin þeim sem leita skjóls. Það geta allir verið hluti af fjölskyldunni þó svo þau séu af annarri tegund. Lykilskilaboð og gildi Múmín sagnanna eru að alveg sama hver þú ert, eða hverrar tegundar þú ert, hvernig þú lítur út, hvaðan þú kemur, þá átt þú alltaf rétt á því að komið sé fram við þig af virðingu. Rétt eins og réttindi barna, þau eiga öll rétt á þeim alveg sama hvað,“ segir Ingibjörg.  

Heimsforeldrar UNICEF, er hópur rúmlega 25.000 einstaklinga á Íslandi, sem fjárfesta í framtíð barna með mánaðarlegu framlagi og eru þannig mögulega stærsti hópur áhrifavalda á Íslandi á framgang Heimsmarkmiðanna. Með því að skrá þig í Múmínævintýrið þá ertu ekki eingöngu að fá einstakt efni sent mánaðarlega til þín og barna þinna heldur líka að leggja þitt að mörkum við það að tryggja réttindi barna um allan heim.   

 Það er leikur einn að gera heiminn að betri stað með UNICEF og Múmín. Vertu með! 

Fleiri
fréttir

20. nóvember 2024

UNICEF: Framtíð barnæskunnar hangir á bláþræði í breyttum heimi 
Lesa meira

20. nóvember 2024

Ungmenni fá orðið á Alþjóðadegi barna: „Kæra fullorðna fólk– Hlustið á okkur“
Lesa meira

18. nóvember 2024

Þúsund dagar af stríði í Úkraínu: 16 börn drepin eða særð í hverri viku
Lesa meira
Fara í fréttasafn