127.350 tilfelli af mislingum greindust í einstaklingum árið 2024 í umdæmi svæðisskrifstofu UNICEF í Evrópu og Mið-Asíu. Tvöfalt fleiri en árið áður og hafa fleiri tilfelli ekki sést síðan 1997. Frá þessu greinir UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, í dag.
Umdæmið telur 53 ríki í Evrópu og Mið-Asíu en í greiningu UNICEF og WHO kemur fram að rúmlega 40 prósent tilfellanna í fyrra hafi greinst hjá börnum undir fimm ára aldri. Í rúmlega helmingi tilfella þurftu sjúklingar að leggjast inn á spítala vegna sjúkdómsins. Alls hefur verið greint frá 38 dauðsföllum vegna þessa samkvæmt bráðabirgðatölum.
Mislingar snúa aftur
Mislingar höfðu almennt verið á undanhaldi á svæðunum frá árinu 1997 þegar 216.000 tilfelli voru tilkynnt. Árin 2018 og 2019 lét smitsjúkdómurinn aftur á sér kræla þegar 89.000 og 106.000 tilfelli greindust. En í kjölfar bakslags í grunnbólusetningum þjóða á meðan heimsfaraldur Covid-19 geisaði fjölgaði tilfellum aftur verulega árin 2023 og 2024. Víða hefur bólusetningarhlutfall ríkja ekki enn náð því sem var fyrir heimsfaraldurinn sem eykur hættuna á útbreiðslu.
„Mislingar eru komnir aftur og þetta ætti að vekja fólk af værum svefni. Ef við erum ekki með hátt bólusetningarhlutfall þá er heilbrigðisöryggi ógnað. Nú þegar við mótum nýja heilbrigðisstefnu fyrir Evrópu og Mið-Asíu megum við ekki missa tökin. Hvert einasta ríki þarf að efla aðgerðir sínar til að ná til vanbólusettra samfélaga,“ segir Dr. Hans Pl Kluge, svæðisstjóri WHO í Evrópu. „Mislingaveiran hvílist aldrei og það getum við ekki heldur leyft okkur að gera.“
Einn þriðja mislingatilfella í heiminum árið 2024 má rekja til þessara svæða en árið 2023 misstu 500.000 börn þar af fyrsta bólusetningarskammti sínum við mislingum sem þeim hefði átt að vera gefinn í hefðbundinni grunnbólusetningu.
Bólusetning besta vörnin gegn veirunni
„Mislingasmitum í Evrópu og Mið-Asíu hefur fjölgað verulega síðastliðin tvö ár sem bendir til skorts á bólusetningum,“ segir Regina De Dominicis, svæðisstjóri UNICEF í Evrópu og Mið-Asíu. „Til að vernda börn fyrir þessum banvæna sjúkdómi þurfum við tafarlausar aðgerðir stjórnvalda, þar á meðal fjárfestingu í heilbrigðisstarfsfólki til frambúðar.“
Mislingar eru ein af mest smitandi veirum sem herja á mannfólk. Auk spítalainnlagna og dauða af völdum fylgikvilla á borð við lungnabólgu, heilabólgu, niðurgangs og ofþornunar, geta mislingar valdið langvarandi heilsufarslegum afleiðingum eins og sjónleysi. Mislingar geta líka skemmt ónæmiskerfið með því að „eyða“ minni þess til að berjast gegn sýkingum, sem gerir einstaklinga sem hafa smitast viðkvæmari fyrir öðrum sjúkdómum. Bólusetning er besta vörnin gegn veirunni skæðu.
Verið á varðbergi
UNICEF og WHO kalla eftir því að stjórnvöld í ríkjum þar sem virk smit eru til staðar auki verulega eftirlit og smitrakningu og ráðist í neyðarbólusetningarherferðir. Það er nauðsynlegt að þjóðir greini frumorsök faraldra, taki fast á veikleikum í heilbrigðiskerfinu og notfæri sér kerfisbundið faraldsfræðileg gögn til að bera kennsl á og loka öllum glufum í hjarðónæmi sínu. Lykilatriði er að ná til tvístígandi foreldra og jaðarsettra samfélagshópa sem og tryggja jafnt aðgengi að bólusetningarþjónustu.
UNICEF og WHO vara í tilkynningu sinni þjóðir, þar sem ekki er útbreiðsla mislinga í augnablikinu, við að vera á varðbergi. Bera þurfi kennsl á og grípa til aðgerða gegn glufum í hópónæmi samfélaga, byggja og viðhalda trausti almennings á mikilvægi bólusetninga sem og heilbrigðiskerfisins.