Rúmum fjórum mánuðum eftir að neyðarástandi var lýst yfir í Pakistan vegna fordæmalausra hamfaraflóða lifa fjórar milljónir barna enn við sýkt og mengað vatn sem ógnar heilsu þeirra og velferð.
UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, vekur athygli á því í dag að algjör sprenging hafi orðið í tilfellum alvarlegra öndunarfærasjúkdóma. Þar að auki hefur tilfellum alvarlegrar bráðavannæringar hjá börnum á flóðasvæðunum nær tvöfaldast á tímabilinu júlí til desember 2022 samanborið við sama tímabili árið 2021. UNICEF áætlar að 1,5 milljón barna þurfi á næringaraðstoð að halda.
Vetrarkuldi, vannæring og sjúkdómar
Abdullah Fadil, fulltrúi UNICEF í Pakistan, segir börn á flóðasvæðum á heljarþröm. „Rigningunni hefur slotað en það sama verður ekki sagt um neyðarástand barna í Pakistan. Nær 10 milljónir barna þurfa á tafarlausri mannúðaraðstoð að halda nú þegar veturinn er að koma og þau skortir fullnægjandi húsnæði og skjól. Vannæring, öndunarfærasjúkdómar og vatnsbornir sjúkdómar ofan á yfirvofandi kuldatíð ógna lífi milljóna barna.“
Sem dæmi er tekið að í Jacobabad í suðurhéruðum Pakistan, þar sem fjölskyldur hafa oft lítið annað en þunna dúka í tímabundnum tjöldum til að halda á sér hita við staðnað flóðvatnið, er hitastig komið niður í sjö gráður að nóttu til. Í fjallahéruðum og öðrum hærri svæðum er tekið að snjóa og hitastig víða við og undir frostmarki.
UNICEF er á vettvangi í Pakistan
UNICEF og samstarfsaðilar hafa hafið að dreifa hlýjum vetrarfatnaði með það að markmiði að ná til 200 þúsund barna, og fjölskyldna þeirra. 800 þúsund börn hafa verið skimuð vegna vannæringar og 60 þúsund greind með alvarlega bráðavannæringu. UNICEF hefur náð til 1,5 milljóna íbúa með grunnheilbrigðisþjónustu nú þegar og 4,5 milljónir barna hafa fengið bólusetningu við mænusótt. Í félagi við samstarfsaðila hefur UNICEF einnig tryggt rúmlega milljón manns aðgengi að hreinu drykkjarvatni og dreift öðru eins af hreinlætispökkum. Á komandi mánuðum stefnir UNICEF á að halda áfram nauðsynlegu mannúðarstarfi sínu á flóðasvæðum Pakistan, en sömuleiðis uppbyggingu á þeim innviðum sem glötuðust í hamförunum.
UNICEF biðlar til alþjóðasamfélagsins að auka stuðning sinn til neyðaraðstoðar í Pakistan svo hægt sé að bregðast við brýnum verkefnum og bjarga lífum áður en það verður um seinan.
Sem Heimsforeldri styður þú við verkefni UNICEF í þágu barna um allan heim, meðal annars á flóðasvæðum Pakistan. Gerast Heimsforeldri.