14. desember 2022

Milljónir barna í Úkraínu í kulda og myrkri fyrir jólin

Áframhaldandi árásir Rússa á mikilvæga orkuinnviði þýða að öll börn í Úkraínu búa við verulega skert og ótryggt aðgengi að rafmagni, hita og vatni nú þegar hitastig lækkar óðum

Ung stúlka yljar hendur sínar yfir viðarkyndingu. Mynd/UNICEF

 Áframhaldandi árásir Rússa á mikilvæga orkuinnviði þýða að öll börn í Úkraínu, nærri sjö milljónir barna, búa við verulega skert og ótryggt aðgengi að rafmagni, hita og vatni nú þegar hitastig lækkar og hátíðirnar eru framundan. UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, lýsir yfir miklum áhyggjum vegna þessa. 

Í tilkynningu UNICEF segir að án rafmagns séu börn ekki aðeins berskjölduð gagnvart vetrarkuldanum, þar sem hitastig getur farið niður í -20°C, heldur skerðist aðgengi þeirra að fjarnámi þeirra sömuleiðis, enda fjölmargir skólar verið eyðilagðir. Heilbrigðisstofnanir eiga á hættu að geta ekki veitt lífsnauðsynlega þjónustu og vart þarf að fjölyrða um afleiðingar þess að vatnsinnviðir séu í lamasessi.

Kuldi myrkur og óvissa 

„Milljónir barna standa frammi fyrir napurlegum vetri í kulda og myrkri þar sem óvissa umlykur allt,“ segir Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, í tilkynningu. 

Aukinn árásaþungi Rússa í október síðastliðnum eyðilagði 40% af orkuframleiðslumöguleikum Úkraínu og þrátt fyrir yfirstandandi viðgerðir þá var ljóst í lok síðasta mánaðar að orkukerfi Úkraínu gæti aðeins staðið undir 70 prósentum af hámarksorkuþörf landsins, samkvæmt upplýsingum frá OCHA (Samhæfingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum). 6,5 milljónir manna, þar af 1,2 milljónir barna, eru enn á vergangi innan Úkraínu eftir að hafa flúið heimili sín. 

Á svæðum sem áður voru óaðgengileg sökum stríðsátaka hefur UNICEF nú hafið að dreifa hlýjum vetrarfatnaði, vatnshiturum og rafölum til orkuframleiðslu í Kharkiv, Kherson og Donetsk-umdæmum. Vetrarhjálpargögn fyrir rúmlega 20 milljónir bandaríkjadala hefur verið dreift þegar þetta er skrifað. 

„Stríðsreglur eru skýrar. Börn og nauðsynlegir innviðir almennra borgara verður að vernda. Það er sömuleiðis nauðsynlegt að UNICEF og kollegar okkar í mannúðarstarfi hafi skjótan og óhindraðan aðgang að börnum og fjölskyldum sem þurfa á mannúðaraðstoð að halda- sama hvar svo sem þau eru stödd,“ segir Russell.

Þetta er það sem stuðningur þinn við UNICEF í Úkraínu hefur skilað:

Það sem af er stríði hefur UNICEF getað veitt 4,9 milljónum barna og kvenna aðgengi að grunnheilbrigðisþjónustu í gegnum bæði heilbrigðisstofnanir sem UNICEF styður við og færanleg teymi sem koma með þjónustu til fólksins. Tryggt aðgengi að öruggu drykkjarvatni fyrir rúmlega 4,2 milljónir manna, og rúmlega milljón fengið vatns- og hreinlætisvörur. UNICEF hefur stutt við geðheilbrigðisþjónustu og náð til 2,5 milljóna barna, 900 þúsund börn hafa fengið aðgengi að formlegu- og óformlegu námi og 500 þúsund börn hafa notið góðs af sérkennslunámi. Þá hefur UNICEF náð til nærri 200 þúsund fjölskyldna með beinum peningastyrkjum.

Fleiri
fréttir

20. nóvember 2024

UNICEF: Framtíð barnæskunnar hangir á bláþræði í breyttum heimi 
Lesa meira

20. nóvember 2024

Ungmenni fá orðið á Alþjóðadegi barna: „Kæra fullorðna fólk– Hlustið á okkur“
Lesa meira

18. nóvember 2024

Þúsund dagar af stríði í Úkraínu: 16 börn drepin eða særð í hverri viku
Lesa meira
Fara í fréttasafn