1. september 2021 „Undanfarnar vikur eru það börnin, sem bera enga ábyrgð á ástandinu í landinu, sem gjalda fyrir það sem aldrei fyrr. Þau hafa ekki aðeins neyðst til að flýja heimili sín heldur geta þau ekki sótt skóla, ekki hitt vini og verið svipt rétti sínum til heilbrigðisþjónustu sem getur haft skelfilegar afleiðingar,“ segir George Laryea-Adjei, svæðisstjóri UNICEF, sem nýkominn er frá Kabúl, höfuðborg Afganistan.
Hann segir að aldrei hafi verið mikilvægara en nú að veita afgönskum börnum og fjölskyldum þeirra lífsnauðsynlega aðstoð og þjónustu. Öryggi almennings sé ógnað, matarverð hafi rokið upp, alvarlegir þurrkar ógni matvælaöryggi þjóðarinnar auk þess sem COVID-19 haldi áfram að dreifa sér og nú þegar veturinn sé handan við hornið séu börn í meiri hættu en nokkurn tímann.
„Með sama áframhaldi áætlar UNICEF að ein milljón barna undir fimm ára aldri í Afganistan muni þjást af alvarlegri bráðavannæringu. Fjórar milljónir barna, þar af 2,2 milljónir stúlkna, geta nú ekki gengið í skóla. Um 300 þúsund börn hafa neyðst til að flýja heimili sín, sum hver á náttfötunum einum klæða um miðja nótt, önnur meðan þau sátu og lásu skólabækurnar sínar. Of mörg þeirra hafa séð hluti sem ekkert barn ætti nokkurn tímann að sjá. Börn og ungmenni glíma við kvíða og ótta og þurfa nauðsynlega á geðheilbrigðisþjónustu að halda,“ segir Laryea-Adjei í yfirlýsingu sinni.
Áhyggjuefni ef dregur úr stuðningi
Hann lýsir yfir áhyggjum sínum að einhverjir íhugi að draga úr stuðningi sínum við Afganistan en ræður þjóðarleiðtogum, hjálparsamtökum og samstarfsaðilum frá slíku enda myndi það vekja óhugnanlegar spurningar:
„Verður þá til fjármagn til að halda heilbrigðisstofnunum gangandi og tryggja að barnshafandi konur geti fætt börn sín án þess að hætta lífi sínu? Munum við geta haldið skólum opnum og tryggja bæði stúlkum og strákum öruggt og þroskandi umhverfi til að mennta sig? Munum við hafa nægt fjármagn til að bjarga lífi hundruð þúsunda alvarlegaa vannærðra barna?“
Laryea-Adjei ítrekar að UNICEF hafi verið starfandi í Afganistan í 65 ár og sé með starfsemi á vettvangi þvert um landið. Virkt samtal sé við alla tengiliði um að auka aðgerðir í öllum héruðum.
„Við erum nú þegar að styðja við færanleg heilbrigðis- og næringarteymi í búðum fyrir fólk á vergangi og flótta. Setja upp barnvæn svæði, næringarmiðstöðvar, bólusetningastaði, dreifa hjálpargögnum og styðja við þúsundir nemenda með námskeiðum.“
En betur má ef duga skal, segir Laryea-Adjei, og segir fjárþörfina enn mikla. Hann viti þó að með nægum stuðningi geti mannúðarsamtök brugðist við þeirri miklu neyð sem nú ríkir í Afganistan. UNICEF setur stefnuna á að safna sem nemur ríflega 24 milljörðum króna á heimsvísu til að gera sitt í þessu krefjandi verkefni og hvetur alla styrktaraðila, stóra sem smáa, að leggja sitt á vogarskálar málstaðarins.
„Neyð barna í Afganistan hefur aldrei verið meiri. Við megum ekki snúa baki við þeim núna.“
UNICEF á Íslandi hefur undanfarnar vikur staðið fyrir neyðarsöfnun fyrir börn í Afganistan. Viðbrögð landsmanna hafa verið virkilega jákvæð. Enn er hægt að styðja söfnunina með því að senda SMS-ið BARN í númerið 1900 ( til að gefa 1.900 krónur) eða gefa frjálst framlag hér.