2. mars 2022 Krónan hefur ákveðið að bjóða viðskiptavinum sínum að styrkja neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi fyrir Úkraínu. Verður viðskiptavinum boðið að bæta 500 krónum við innkaup sín í verslunum og Snjallverslun Krónunnar sem renna til söfnunarinnar og mun Krónan svo jafna hvert framlag.
„Við hjá UNICEF á Íslandi erum stolt og þakklát fyrir einstakt samstarf við Krónuna. Þau þekkja hversu mikilvæg og umfangsmikil verkefni UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, eru í þágu barna í Úkraínu. Við vitum að framtakið mun mælast vel fyrir hjá viðskiptavinum Krónunnar og vonum að það verði öllum hvatning til að leggja sitt af mörkum,“ segir Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.
Krónan hefur áður reynst UNICEF á Íslandi mikilvægur bakhjarl í fjáröflunarverkefnum. Í fyrra söfnuðust rúmar 8,3 milljónir króna í sambærilegu framtaki hjá Krónunni og viðskiptavinum hennar til að tryggja dreifingu á bóluefni við COVID-19 til efnaminni ríkja.
UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, hefur um árabil verið á vettvangi í Úkraínu á ófriðartímum í austurhluta landsins að veita nauðsynlega mannúðaraðstoð. UNICEF er nú á vettvangi stríðsátaka að tryggja hreint vatn, hjálpargögn, skólagögn, félags- og sálfræðiþjónustu og fjárhagsaðstoð. Milljónir barna eru nú í skotlínu stríðsátaka og staða þeirra versnar með hverri mínútunni. UNICEF ítrekar ákall sitt um vopnahlé, að lífi óbreyttra borgara og nauðsynlegum innviðum verði hlíft, að alþjóðalög um að vernd barna í stríði séu virt og öruggt aðgengi hjálparstofnana til mannúðarstarfs á vettvangi verði tryggt.
Neyðarsöfnun fyrir börn í Úkraínu er í fullum gangi. Hægt er að nálgast allar frekari upplýsingar um styrktarleiðir hér á vef UNICEF á Íslandi.