16. september 2022

Kraftmikil og vel heppnuð ráðstefna UNICEF um þátttöku barna

Sjáðu myndirnar frá frábærum degi

Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, og Marie Wernham, aðalræðumanneskja ráðstefnunnar. Mynd/Gerður

Það var mikill kraftur og ánægja sem einkenndi ráðstefnu UNICEF á Íslandi um þátttöku barna sem fram fór á Reykjavík Natura í gær fyrir fullu húsi. Ráðstefnugestir voru úr röðum starfsfólks og kennara skóla á grunn- og leikskólastigi, frístunda, stjórnsýslu og annarra stofnana og létu þátttakendur vel af deginum. Fjölbreyttar mál- og vinnustofur, sem tengdust þátttöku barna í starfi sveitarfélaga, skóla og frístundavettvangs, réttindafræðslu til að auka þátttöku barna og tækifæri til áhrifa í starfi sveitarfélaga, voru líflegar og skemmtilegar þökk sé öllu því frábæra fólki sem tók þátt í þeim. Er það von UNICEF á Íslandi að öll þau sem mættu og tóku þátt hafi yfirgefið þessa vel heppnuðu ráðstefnu full eldmóði um réttindi og þátttöku barna.

Innblástur og fæðingastaður margra hugmynda 

Hanna Borg Jónsdóttir, sérfræðingur í innleiðingu Barnasáttmálans og Barnvænna sveitarfélaga, og Sigyn Blöndal, Réttindaskólastjóri UNICEF á Íslandi, voru meðal þeirra sem stýrðu mál- og vinnustofum á ráðstefnunni í gær og komu að undirbúningi og skipulagningu hennar ásamt innanlandsteymi UNICEF á Íslandi. Þær voru hæstánægðar með hvernig til tókst.

„Dagurinn var frábær,“ segir Hanna Borg. „Við fengum með okkur hóp af einstaklega færu fólki sem deildi dýrmætri reynslu af fjölbreyttum þátttökuleiðum fyrir börn. Marie Wernham, aðalræðumaður ráðstefnunnar, var algjörlega frábær enda hefur hún einstakt lag á að fræða aðra um réttindi barna og skyldur fullorðinna.“

Hanna segir gesti hafa komið úr ýmsum ólíkum áttum en mörg hafi haft á orði að þau hefðu fyllst innblæstri og að nýjar hugmyndir hefðu fæðst.

„Meðal annars um hvernig skapa megi nýjar leiðir fyrir börn að koma skoðunum sínum á framfæri og hafa áhrif innan skóla, leikskóla, í skipulagsmálum, í samvinnu við ungmennaráð og í tengslum við verkefnið Barnvæn sveitarfélög. Það var markmið ráðstefnunnar og erum við hjá UNICEF á Íslandi himinsæl og hlökkum til að fylgjast með og styðja við þróun frekari þátttökuleiða fyrir börn.“

Eldmóður, kraftur og þakklæti

Sigyn tekur undir þetta og segir að dásamlegt hafi verið að fylgjast með og taka þátt í ráðstefnunni í gær.

„Þegar svona hópur kemur saman er ekki annað hægt, held ég. Um hundrað manns sem öll brenna fyrir réttindum barna. Eldmóður og kraftur skein úr hverju andliti eftir ráðstefnuna og það verður spennandi að fylgjast með hvaða áhrif svona eldhugasamkoma hefur.“

Sigyn segir hugmyndirnar sem komið hafi fram í gær hafi verið frábærar.

„Meðal annars af skuggadegi skólastjórnenda, þar sem stjórnendur setja sig í spor nemenda síns skóla og gerast sjálfir nemendur í einn dag. Ingvi Hrannar Ómarsson, kennari og frumkvöðull, skipulagði slíkan dag fyrr á árinu og segir það skipta sköpum að setja sig í spor barnanna og tala við þau þegar við viljum bæta skólastarfið og umhverfi þeirra á skóla- og frístundatíma. Og hver veit nema við hjá UNICEF þróum þetta eitthvað áfram inn í Réttindaskólana okkar. Við fengum nefnilega líka fullt af góðum hugmyndum út úr þessu. Við erum stútfull af þakklæti og krafti að halda áfram að bæta okkar verkefni í samstarfi við allt þetta frábæra fólk.“

Hér fyrir neðan getur þú séð nokkrar valdar myndir frá deginum. 

Misstir þú af ráðstefnunni? Þú getur horft á hana aftur á YouTube-rás UNICEF á Íslandi, með því að smella hér.

Ráðstefnan var studd af áætlun Evrópusambandsins um réttindi, jafnrétti og borgararétt. (Rights, Equality and Citizenship Programme 2014-2020)

Marie Wernham talar fyrir fullum sal á Reykjavík Natura.
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, hélt ræðu við setningu ráðstefnunnar. Með honum á mynd er Hjördís Eva Þórðardóttir, sérfræðingur í ráðuneytinu.
Sigyn Blöndal stýrir málstofu um þáttöku og áhrif barna á skólastarf. Í pallborði eru Helga María og Alexander Ívar frá Menntakerfið okkar og Sigríður Heiða Bragadóttir, skólastjóri Laugarnesskóla.
Pétur Hjörvar Þorkelsson, sérfræðingur í innanlandsteymi UNICEF á Íslandi, ásamt Evu Harðardóttur, aðjunkt við Háskóla Íslands.
Hanna Borg Jónsdóttir, sérfræðingur hjá UNICEF á Íslandi, Ólafur Bergur Ólafsson umsjónarmaður ungmennaráðs Reykjanesbæjar, Betsý Ásta og Hermann Borgar, ungmennaráði Reykjanesbæjar og Vigdís Fríða Þorvaldsdóttir, sérfræðingur. Málstofa um ungmennaráð og áhrif á stjórnsýslu.
Svo margir góðir punktar að það var gott að glósa þá alla :)
Marie Wernham útskýrir Þátttökustiga Rogers Hart.
Ólafur Ingibergsson frá skipulagssviði Reykjavíkurborgar talar um umhverfi, skipulag og þátttöku barna.
Gerður Magnúsdóttir leikskólastjóri og Hrönn Pálmadóttir frá Menntavísindasviði HÍ, á málstofu um þátttöku yngri barna.
Vinnustofur voru líflegur og skemmtilegur vettvangur fyrir ráðstefnugesti.
Fleiri
fréttir

20. nóvember 2024

UNICEF: Framtíð barnæskunnar hangir á bláþræði í breyttum heimi 
Lesa meira

20. nóvember 2024

Ungmenni fá orðið á Alþjóðadegi barna: „Kæra fullorðna fólk– Hlustið á okkur“
Lesa meira

18. nóvember 2024

Þúsund dagar af stríði í Úkraínu: 16 börn drepin eða særð í hverri viku
Lesa meira
Fara í fréttasafn