Um 560 milljónir barna lifa nú við aukna tíðni hitabylgja og sú tala gæti hækkað í rúmlega 2 milljarða barna árið 2050 samkvæmt nýrri skýrslu UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, sem ber yfirskriftina „The Coldest Year of the Rest of Their Lives: Protecting Children from the Escalating Impacts of Heatwaves.“
Skýrslan er gefin út í aðdraganda COP27 loftslagsráðstefnunnar sem fer fram í næsta mánuði.
Á árinu 2022 hafa hitabylgjur á bæði suður- og norðurhveli jarðar slegið öll met og reynir UNICEF með skýrslunni að varpa ljósi á alvarlegar afleiðingar þessa á börn. Nú þegar sjást afleiðingar þessa greinilega á sögulegum flóðum í Pakistan og miklum hamfaraþurrkum á Afríkuhorninu. Skýrslan áætlar að fyrir árið 2050 muni öll börn jarðar, rúmlega 2 milljarðar barna, upplifa aukna tíðni hitabylgja hvort heldur sem tekst að ná markmiðum um litla losun gróðurhúsalofttegunda og hækkun hitastigs um 1,7 gráður, eða mikla losun gróðurhúsalofttegunda með áætlaða hækkun hitastigs jarðar um 2,4 gráður árið 2050.
Algjört lágmark er allt of lítið
Skýrsla UNICEF er unnin í samstarfi við The Data Collaborative for Children og sett fram í samstarfi við Góðgerðarsendiherra UNICEF, Venessu Nakate og loftlagsaðgerðasamtök hennar Rise up. Niðurstöður hennar sýna brýna nauðsyn þess að laga þjónustu og verkefni í þágu barna að þeirri óumflýjanlegu staðreynd sem er hækkandi hitastigs jarðar.
„Fleiri börn munu verða fyrir áhrifum lengri, heitari og fleiri hitabylgja á næstu þrjátíu árum sem ógna mun heilsu þeirra og velferð. Hversu skelfilegar afleiðingar þessarar þróunar verða veltur á þeim ákvörðunum sem við tökum NÚNA. Það er algjört lágmark að ríki heims setji markmiðið um hámarkshlýnun jarðar í 1,5 gráður og tvöfaldi aðlögunarframlög sín fyrir árið 2025. Það er eina leiðin til að bjarga framtíð barnanna og framtíð þessarar plánetu,“ segir Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF, ómyrk í máli. Ljóst sé að gera þurfi meira en lágmarksmarkmið gera ráð fyrir í dag.
Í skýrslunni kemur fram að 538 milljónir barna, eða 23 prósent allra barna í heiminum, finna nú fyrir áhrifum langvarandi hitabylgja. Ef miðað er við lágmarkshækkun hitastigs jarðar um 1,7 gráðu þá verður þessi fjöldi 1,6 milljarðar barna árið 2050. 1,9 milljarður barna ef hitastig hækkar um 2,4 gráður.
Milljónir barna til viðbótar munu verða fyrir áhrifum annarra mælikvarða sem eru alvarlegar hitabylgjur (e. High heatwave severity) og öfgakennds hita (e. Extreme high temperatures). Fram kemur að börn á norðurslóðum, sérstaklega í Evrópu, muni finna mest fyrir auknum fjölda alvarlegra hitabylgja fyrir árið 2050 og nær helmingur allra barna í Afríku og Asíu muni lifa við viðvarandi hitaöfga.
Kaldasta ár það sem eftir er ævi okkar
„Loftslagsöfgar ársins 2022 eiga að hringja viðvörunarbjöllum yfir þeim gríðarlegu hættum sem við stöndum frammi fyrir,“ segir Vanessa Nakate, loftlagsaðgerðasinni og Góðgerðarsendiherra UNICEF. „Hitabylgjur eru augljóst merki um það. Eins hlýtt og þetta ár hefur verið í nær öllum heimshornum þá er mjög líklegt að þetta verði samt sem áður kaldasta ár það sem eftir er ævi okkar. Það er búið að snúa hitastýringunni á plánetunni en þrátt fyrir það eru þjóðarleiðtogar ekki enn farnir að svitna. Okkar eina val er því að hækka hitann undir þeim og krefjast þess að þau leiðrétti þá stefnu sem við erum á. Leiðtogar heimsins verða að gera þetta á COP27 ráðstefnunni, fyrir öll börn og þá sérstaklega þau viðkvæmustu á verst settu svæðunum. Ef þau grípa ekki til aðgerða– og það strax– sýnir þessi skýrsla að hitabylgjur muni verða enn alvarlegri en þegar er spáð.“
UNICEF krefst þess að stjórnvöld um allan heim:
· Verndi börn gegn hamfarahlýnun með því að aðlaga þjónustu sína að þeim. Þetta á við um þjónustu á borð við vatn, hreinlæti, heilbrigðiskerfi, menntun, næringu, félagsþjónustu og barnavernd. Styrkja verður matvælakerfi til að standa af sér hamfarir og tryggja aðgengi að heilsusamlegu fæði. Auka þarf fjárfestingu í snemmbærri íhlutun og greiningu á vannæringu barna, mæðra og viðkvæmra einstaklinga. Á COP27 verður að forgangsraða börnum og réttindum þeirra.
· Búi börn undir að lifa við breyttan loftlagsveruleika. Þetta felur í sér fræðslu um loftslagsbreytingar, skaðaminnkun, þjálfun í grænum úrræðum í atvinnuvegi og merkingarbærri þátttöku til áhrifa í mótun loftlagsstefnu.
· Forgangsraði í þágu barna og ungmenna í loftslagsfjármálum og auðlindanýtingu. Efnameiri ríki verða að standa við samkomulag sitt frá COP26 um að tvöfalda aðlögunarfjármagn sitt í 40 milljarða dala á ári fyrir árið 2025 að lágmarki. Sem lið í að ná markmiði um að verja 300 milljörðum dala í aðlögun að breyttum veruleika árið 2030. Aðlögunarfjármagn verður að vera helmingur alls þess fjármagns sem rennur til loftlagsmála.
· Komi í veg fyrir frekari loftslagshörmungar með því að minnka losun gróðurhúsalofttegunda og halda markmiði um 1,5 gráðu hlýnun jarðar lifandi. Spár gera ráð fyrir 14% aukningu í losun gróðurhúsalofttegunda á þessum áratug sem mun steypa okkur í glötun. Allar þjóðir verða að endurskoða loftslagsmarkmið sín og stefnu. Skera þarf niður losun gróðurhúsalofttegunda um 45% fyrir árið 2030 til að ná því markmiði að hlýnun jarðar verði ekki meiri en 1,5 gráður.
Lesa má skýrsluna í heild sinni hér.