04. nóvember 2025

Hungursneyð staðfest í Al Fasher og Kadugli í Súdan

FAO, WFP og UNICEF vara við alvarlegustu stigum bráðs matarskorts og vannæringar í Al Fasher og Kadugli. Dregur úr hungri og vannæringu þar sem átök hafa dregist saman og þjónusta hafist á ný.

Þessi börn náðu að flýja Al Fasher ásamt fjölskyldum sínum. Mynd:UNICEF/UN0860186/Jamal

Nýjasta greining á fæðuóöryggi og vannæringu í Súdan sýnir að ástandið í bæjunum Al Fasher og Dadugli í Súdan er nú komið yfir hungursneyðarmörk. Þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO), Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP) og UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, í dag.

Stofnanirnar krefjast tafarlauss vopnahlés og að öruggt og óhindrað aðgengi mannúðaraðstoðar verði komið á svo koma megi í veg fyrir frekara manntjón og verja lífsviðurværi fólks. 

Fæðuöryggi batnar á friðsamari svæðum

Í tilkynningu um greininguna kemur fram að þar sem dregið hefur úr árásum, mannúðaraðstoð fengið að komast að og markaðir komist aftur í samt lag hefur fæðuöryggi batnað. En á svæðum sem áfram sæta umsátri eða íbúar eru innlyksa frá allri aðstoð hefur hungursneyð nú náð fótfestu.

Samkvæmt nýjustu samantekt IPC kom í ljós að í september 2025 hafði bráðafæðuóöryggi lítillega minnkað. Um 21,2 milljónir manna – eða 45 prósent íbúa landsins – glíma enn við alvarlegt fæðuóöryggi (stig IPC3+). Skýr merki um viðsnúning má einkum sjá í Khartoum, Al Jazirah og Sennar, þar sem átök hafa dregist saman. Fjölskyldur snúa aftur heim, markaðir opna á ný og flæði viðskipta og mannúðaraðstoðar hefur batnað. Þó eru þessar framfarir brothættar. Efnahagur landsins og grunnþjónusta hafa verið í molum, og mikilvægir innviðir eyðilagðir eða skemmdir.

Hungursneyð staðfest í Al Fasher og Kadugli

Í vesturhluta landsins – einkum í Norður-Darfur, Suður-Darfur, Vestur-Kordofan og Suður-Kordofan – halda átök áfram og aðgangur að hjálp er mjög takmarkaður. Þar fer hungur og vannæring ört vaxandi.

Samkvæmt niðurstöðum matsnefndar um hungursneyð (e. Famine Review Committee, FRC) hefur ástandið í Al Fasher í Norður-Darfur og Kadugli í Suður-Kordofan nú náð 5. stigi IPC og þar með hungursneyð. Al Fasher og Kadugli eru tveir bæir sem hafa að mestu verið einangraðir frá viðskiptum og mannúðaraðstoð vegna hrottalegra átaka síðustu vikur og mánuði.
Þessi svæði voru áður á 4. stigi (neyðarástand) árið 2024, en eru nú komin yfir hungursneyðarmörkin hvað varðar matarneyslu, vannæringu og dánartíðni.

Ástandið í Dilling, Suður-Kordofan, er talið svipað og í Kadugli, en ekki er hægt að staðfesta það vegna skorts á áreiðanlegum gögnum – sem er afleiðing takmarkaðs aðgengis og áframhaldandi átaka.

Í Vestur-Núbafjöllum hefur ástandið batnað lítillega, og svæðið er því ekki lengur flokkað í „hættu á hungursneyð“ heldur á stig 4 (neyðarástand). Hins vegar er hættan enn mikil ef mannúðaraðstoð berst ekki.

Spár FRC vara einnig við hættunni á hungursneyð á tuttugu öðrum svæðum í héruðum Darfur og Kordofan.

Banvæn blanda

Á sama tíma aukast tilfelli kóleru, malaríu og mislinga á svæðum þar sem heilbrigðis-, vatns- og hreinlætiskerfi hafa hrunið, sem eykur dánarhættu vannærðra barna.

„Þessi banvæna blanda hungurs, sjúkdóma og fólksflótta setur milljónir barna í lífshættu,“ segir Lucia Elmi, yfirmaður neyðaraðgerða UNICEF. „Stúlkur bera oft þyngstu byrðina – þær verða fyrir vannæringu, kynbundnu ofbeldi og eru teknar úr skóla. Meðferðarmat, hreint vatn og aðgangur að lyfjum og heilbrigðisþjónustu geta bjargað mannslífum – en aðeins ef við komumst til barnanna í tæka tíð. Við köllum eftir því að allar aðilar virði alþjóðalög og tryggi mannúðarstarfsmönnum öruggan, tímanlegan og óhindraðan aðgang.“

UNICEF, WFP og FAO beina nú aðgerðum sínum að þeim svæðum sem verst eru stödd og veita samþætta aðstoð á sviði matvælaöryggis, næringar, heilbrigðis, vatns og hreinlætis (WASH), sem og stuðnings við landbúnað og búfjárheilbrigði. Aðgangur að svæðunum er þó áfram óstöðugur, og bæði starfsmenn og birgðir verða oft fyrir árásum og öruggisástand ótryggt.

Án öruggs og viðvarandi aðgengis fyrir mannúðaraðstoð, nægs fjármagns og vopnahlés mun hungursneyð halda áfram að geisa og kosta börn lífið í Súdan.

Við minnum á neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi fyrir börn í Súdan.

Hringdu í 907-3015 og gefðu 3.000 krónur.

Söfnunarreikningur fyrir frjáls framlög er: 701-26-102020 Kennitala: 481203-2950.

Fleiri
fréttir

04. nóvember 2025

Hungursneyð staðfest í Al Fasher og Kadugli í Súdan
Lesa meira

03. nóvember 2025

Vegatálmar á skólagöngunni 
Lesa meira

22. október 2025

12 milljónir króna söfnuðust í neyðarsöfnun UNICEF og Krónunnar
Lesa meira
Fara í fréttasafn