07. apríl 2025

Sveitarfélagið Hornafjörður fær viðurkenningu sem Barnvænt sveitarfélag 

Hornafjörður er fjórða sveitarfélagið á Íslandi til að hljóta viðurkenninguna 

Sveitarfélagið Hornafjörður hlaut á föstudag formlega viðurkenningu UNICEF á Íslandi sem Barnvænt sveitarfélag við hátíðlega athöfn í íþróttahúsinu á Höfn. Sveitarfélagið hefur undanfarin ár unnið af krafti að því að innleiða verkefnið og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í stjórnsýslu sína og dagleg störf og er nú orðið fjórða sveitarfélagið á landinu til að hljóta formlega viðurkenningu sem Barnvænt sveitarfélag UNICEF.  

Í þágu réttinda barna og vilja til að gera Hornafjörð að enn betri stað fyrir börn hefur ungmennaráð sveitarfélagsins verið afar virkt og vel verið hugað að þátttöku barna í ákvarðanatöku þess. Ungmennaráðið á áheyrnarfulltrúa í öllum fastanefndum sveitarfélagsins og fá fulltrúar greitt fyrir sín störf. Unnið hefur verið að því að bæta göngu- og hjólaleiðir í sveitarfélaginu í samráði við börn, unnið að því að fjölga leikvöllum og bæta þá sem fyrir eru ásamt mörgum öðrum verkefnum. 

Sigurjón Andrésson, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Hornafjarðar: 

„Við hér í Hornafirði erum afar stolt af því að vera nú eitt af aðeins fjórum sveitarfélögum á Íslandi sem hefur fengið viðurkenningu sem Barnvænt sveitarfélag UNICEF. Þessi viðurkenning er staðfesting á því að við erum að leggja okkur fram um að rækta og þróa samfélagið hér þannig að rödd barna og ungmenna heyrist og þau séu hluti af þeim ákvörðunum sem að þeim snúa og að þau fái fullan stuðning okkar til að vaxa og dafna.  

En um leið og við gleðjumst yfir því að fá viðurkenninguna þá vitum við að hún er bara einn áfangi á lengri vegferð. Við erum hvergi nærri hætt og við ætlum að nýta þessa viðurkenningu sem hvatningu til að halda áfram að bæta og þróa okkar samfélag þannig að það verði enn betra fyrir börn og ungmenni í framtíðinni.“  

Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi:   

„Sveitarfélagið Hornafjörður hefur áunnið sér viðurkenningu sem Barnvænt sveitarfélag með aðdáunarverðri elju, metnaði og samstarfi barna, ungmenna og fullorðinna. Þau bjuggu að því að hafa langa reynslu af þátttöku ungmennaráðs í bæjarmálunum og notuðu tækifærið af verkefninu til að dýpka, auka og bæta þátttökuna - meðal annars með þátttöku ungmenna í hafnarstjórn, sem er líklega einsdæmi. Á viðurkenningarathöfninni sagði fulltrúi ungmennaráðsins listann yfir ókláruð verkefni ennþá langan og það var ljóst að fólk á öllum aldri lætur engan bilbug á sér finna að halda ótrauð áfram á vegferðinni að gera Hornafjörð að enn betri fyrir börn - og fyrir vikið öll sem þar búa.“ 

UNICEF á Íslandi óskar öllum í Hornafirði til hamingju með viðurkenninguna og áfangann.  

Um verkefnið Barnsvæn sveitarfélög 
Barnvæn sveitarfélög er verkefni sem styður sveitarfélög við að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í alla sína stjórnsýslu og starfsemi. Verkefnið byggir á alþjóðlegu verkefni UNICEF, Child Friendly Cities Initiative (CFCI), sem hefur verið innleitt í þúsundum sveitarfélaga út um allan heim frá árinu 1996. Verkefnið byggir jafnframt á efni frá umboðsmönnum barna í Noregi og Svíþjóð og UNICEF í Finnlandi. UNICEF á Íslandi hefur umsjón með verkefninu en verkefnið er stutt af mennta- og barnamálaráðuneytinu. Nánar um verkefnið á vefsíðu Barnvænna sveitarfélaga. 

UNICEF á Íslandi óskar öllum í Hornafirði til hamingju með viðurkenninguna og áfangann
Fleiri
fréttir

07. apríl 2025

Sveitarfélagið Hornafjörður fær viðurkenningu sem Barnvænt sveitarfélag 
Lesa meira

02. apríl 2025

322 börn verið drepin á Gaza síðan vopnhlé var rofið
Lesa meira

01. apríl 2025

Isabel Burchard: Ísland er fyrirmynd og mikilsmetinn styrktaraðili UNICEF
Lesa meira
Fara í fréttasafn