Á árunum 2005 til 2020 hafa Sameinuðu þjóðirnar staðfest 266 þúsund alvarleg brot gegn börnum á yfir 30 átakasvæðum víðs vegar um Afríku, Asíu, Mið-Austurlöndum og rómönsku Ameríku. Frá þessu er greint í nýrri skýrslu UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna um brot gegn börnum í stríði í dag. Skýrslan greinir sömuleiðis frá því að hægt sé að fullyrða að raunveruleg brot gegn börnum séu mun fleiri en þessi tala yfir staðfest brot gefi til kynna.
Börn eiga aldrei sök í stríði en engu að síður eru það börn sem bera mestan skaða af vopnuðum átökum. Í skýrslunni segir að á árunum 2005-2020 séu staðfest tilfelli skráð um að:
- 104.100 börn hafi verið ýmist drepin eða þau særst alvarlega í stríðsátökum.
- 93.000 börn hafi verið neydd til hermennsku í stríðsátökum.
- 25.700 börn hafi verið numin á brott af stríðandi fylkingum.
- 14.200 börnum hafi verið beitt kynferðislegu ofbeldi.
- 13.900 skólar og sjúkrahús hafi sætt árásum
- 14.900 tilfelli um að stríðandi fylkingar hindri aðgang barna að mannúðaraðstoð.
„Skýrsla þessi leggur spilin á borðið og sýnir, svo ekki verður um villst, að heimsbyggðin fær falleinkunn í að vernda börn gegn alvarlegum brotum í stríði,“ segir Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF. „Alvarleg brot gegn réttindum barna hefur víðtæk áhrif á börnin, fjölskyldur þeirra og samfélög. Við hreinlega neitum að samþykkja brot gegn börnum sem óumflýjanlegan fylgifisk stríðs.“
71 brot að meðaltali á dag
Fjöldi brota gegn börnum í stríði hefur farið stigvaxandi frá árinu 2005 en fór fyrst yfir 20 þúsund á ári árið 2014 og endaði í 26.425 skráðum tilfellum árið 2020. Á tímabilinu 2016 til 2020 var meðaltal alvarlegra brota gegn börnum á átakasvæðum 71 á dag.
Í skýrslunni kemur fram að mörg börn verði fyrir ítrekuðum brotum. Þannig geti barn sem er numið á brott verið neytt til að gegna hermennsku en líka sætt kynferðislegu ofbeldi eða annars konar líkamlegu og andlegu ofbeldi.
Skýrslan varpar ljósi á að brot gegn börnum eiga sér stað af hálfu allra aðila stríðs, bæði stjórnarhermanna, uppreisnarmanna og annarra stríðandi fylkinga þó meirihluti brota séu framin af hálfu uppreisnarmanna. UNICEF bendir á í skýrslunni að þetta undirstriki mikilvægi þess að ná til allra aðila átaka, ekki aðeins stjórnvalda, til að tryggja vernd barna.
Catherine Russell segir að UNICEF og samstarfsaðilar muni hvergi hvika í baráttu sinni gegn brotum á börnum. „Þessi barátta hefur aldrei verið mikilvægari en nú, þegar haft er í huga að ekki síðan í Seinni heimsstyrjöldinni hafa fleiri börn orðið fyrir skaðlegum áhrifum átaka og ofbeldis stríðsátaka.“
UNICEF hefur miklar áhyggjur af síendurteknum loftárásum á íbúðasvæði, þar sem börn eru drepin eða limlest, missa fjölskyldumeðlimi og heimili þeirra, skólar og heilsugæslur eru eyðilagðar.
Í skýrslunni, sem byggir á margra ára greiningu og gögnum, er lögð áhersla á að markmiðið verði að setja vernd barna í forgrunn með því að virkja alla hlutaðeigandi, þar á meðal stríðandi fylkingar, ríki, og Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, og flýta aðgerðum í þá veru á öllum stigum.
Árásir á börn eru skýrt brot gegn alþjóðalögum og alþjóðlegum mannréttindasáttmálum. UNICEF krefst þess að stríðandi aðilar, ríki og aðrir hlutaðeigandi virði skuldbindingar sínar um að vernda börn í stríðsátökum og að alþjóðasamfélagið beiti kröftum sínum og áhrifum í þágu friðar. Auk þess útlistar skýrslan hvernig:
- Betur megi auka umönnun og viðbragðsþjónustu fyrir börn sem þjást vegna stríðs.
- Bæta megi gagnaöflun og greiningu til að bæta viðbrögð og forvarnir.
- Styðja megi betur við sérstaka starfshópa og eftirlitsaðila, s.k. Country Task Forces on Monitoring and Reporting (CTFMR).
- Finna megi betri leiðir til að ná til allra hópa stríðandi aðila til að koma á fót aðgerðaráætlun um vernd barna í átökum.