14. mars 2025

Heil kynslóð barna í Súdan í hættu

Ræða Luciu Elmi, yfirmanns neyðaraðgerða UNICEF, í Þjóðahöllinni í Genf

Börn að leik á barnvænu svæði UNICEF í Al Houri flóttamannabúðunum í Súdan. Mynd: UNICEF/UNI756086/Abdulmajid

„Í morgun vil ég beina athygli ykkar að börnum Súdan—sem eru fangar einnar verstu mannúðarkrísu veraldar. Ég sneri nýlega aftur frá landi þar sem átök, nauðungarflutningar og hungur eru að eyðileggja líf ungra barna.“ Þannig hófst átakanleg ræða Luciu Elmi, yfirmanns neyðaraðgerða UNICEF, sem hún flutti í Þjóðarhöllinni í Genf í dag um skelfilega stöðu barna í Súdan.

Hér er ræða hennar í heild sinni:

„Rúmlega 16 milljónir barna í Súdan þurfa bráðnauðsynlega á aðstoð að halda. Tæplega 17 milljónir barna hafa verið utan skóla í tvö ár. Stúlkur standa frammi fyrir alvarlegum háska, þar á meðal kynferðisofbeldi, mansali og nauðungarhjónaböndum. Yfir 12 milljónir einstaklinga eru í hættu á kynbundnu ofbeldi.

Börn eru drepin, limlest og numin á brott, og daglega eru skráð alvarleg brot gegn þeim. Mörg eru þvinguð í herþjónustu, barnaþrælkun og –hjónabönd. Sálrænar afleiðingar eru skelfilegar—átök, missir og nauðungarflutningar hafa skilið börn eftir í kvíða, þunglyndi og áfallastreitu. Bráð nauðsyn er að vernda börn í Súdan.

Yfirþyrmandi þörf fyrir aðstoð

Að ná til þessara barna verður sífellt erfiðara. Í nýlegri heimsókn minni fór ég til Kassala, Gedaref og Wad Medani, varð ég vitni að stúlkum og drengjum í næringarskimun, mæðrum í leit að bráðameðferð fyrir börn sín og fjölskyldum sem örvænta um hreint vatn og hreinlætisaðstöðu. Þörfin er yfirþyrmandi, en aðstoðin er ekki veitt í nægjanlegu magni eða nógu hratt.

Á sama tíma sá ég svolítið merkilegt—fólk á flótta og heimamenn vinna saman að því að veita mannúðaraðstoð, börn sem eru spennt að læra og leika sér í bráðabirgðaskólum. Fyrir mörg börn er þetta í fyrsta sinn sem þau fá tækifæri til að ganga í skóla, þar sem þau koma frá svæðum þar sem engin fræðsluþjónusta var til staðar. Þessir skólar snúast ekki aðeins um nám; þeir veita börnum öryggi, von og eðlilegt líf.

Ég sá einnig rútur, hlaðnar þeim fáu eigum sem fjölskyldur gátu tekið með sér, á leið til svæða þar sem átök hafa dregist saman—Seenja, Sennar og Wad Medani. Foreldrar hefja varfærnislega heimför í von um að aðstæður haldist stöðugar svo þau geti byggt upp líf sitt á ný. En ég hitti líka fjölskyldur sem hafa engan stað til að snúa aftur til. Þorp þeirra eru horfin, samfélög þeirra sundruð. Þau eru föst í biðstöðu, án vonar fyrir framtíðina.

Mannúðaraðstoð er enn tafin af skriffinnsku og stjórnsýsluhindrunum við að afla nauðsynlegra leyfa til að koma vistum til svæða sem orðið hafa fyrir eða sæta árásum. Áframhaldandi vopnuð átök, þjóðernisdrifið ofbeldi og beinar árásir á hjálparstarfsmenn og sjálfboðaliða gera ástandið enn verra. Rán og ofbeldi hafa orðið til að mörg samtök hafa stöðvað starfsemi sína.

Alvarlegur fæðuskortur þrefaldast

Á síðasta ári þróaðist matvælakrísa Súdan í hungursneyð, eitthvað sem við höfum lengi varað við, og nú varar UNICEF við að staðan fari enn versnandi. Frá apríl 2023 hefur fjöldi þeirra sem standa frammi fyrir alvarlegri fæðuskorti þrefaldast. Hungursneyð hefur brotist út á að minnsta kosti fimm stöðum, þar á meðal í flóttamannabúðum í Norður-Darfur og Vestur-Núbafjöllum.

Á landsvísu er gert ráð fyrir að 3,2 milljónir barna undir fimm ára aldri muni þjást af alvarlegri vannæringu á þessu ári, þar af 770.000 með lífshættulega bráðavannæringu—banvænasta form hungurs, sem eykur líkur barna á að deyja úr sjúkdómum ellefufalt.

En þetta neyðarástand snýst ekki aðeins um mat. Án öruggs vatns, hreinlætisaðstöðu og heilbrigðisþjónustu eiga börn ekki möguleika á að lifa af. Á svæðum þar sem hungursneyð geisar hefur grunnþjónusta hrunið.

UNICEF skilar árangri í þágu barna á vettvangi

Þrátt fyrir gífurlegar áskoranir heldur UNICEF áfram störfum á vettvangi. Á árinu 2024 tókst okkur að:
• Veita 2,7 milljónum barna og umönnunaraðila sálrænan stuðning, menntun og vernd.
• Tryggja 9,8 milljónum manna aðgang að hreinu drykkjarvatni.
• Skima 6,7 milljónir barna fyrir vannæringu og veita 422.000 þeirra lífsbjargandi meðferð.

Árið 2025 munum við halda áfram að veita brýna aðstoð á sama tíma og við störfum að því að endurreisa grunnþjónustu og styrkja viðnámsþol á þeim svæðum sem verst hafa orðið úti.

Súdan stendur frammi fyrir því að missa heila kynslóð barna. Við köllum á alla aðila að grípa til aðgerða strax, m.a. með því að:
• Tryggja aðgang að mannúðaraðstoð yfir átakasvæði og landamæri.
• Vernda starfsfólk mannúðarstofnana og vistir.
• Auka fjármögnun til að mæta ört vaxandi þörf.
• Binda enda á ofbeldið.

„Börn Súdan geta ekki beðið. Heimsbyggðin verður að bregðast við—strax.“

Fleiri
fréttir

14. mars 2025

Heil kynslóð barna í Súdan í hættu
Lesa meira

13. mars 2025

Mislingasmit ekki verið fleiri í aldarfjórðung í Evrópu og Mið-Asíu
Lesa meira

07. mars 2025

Valdefling unglingstúlkna fjárfesting í sjálfbærari og réttlátari heimi
Lesa meira
Fara í fréttasafn