08. september 2023

Hæsta hlutfall barna á flótta í heiminum er í Suður-Ameríku og Karíbahafi

Metfjöldi barna er nú á flótta í Suður-Ameríku og Karíbahafi en samkvæmt velferðarviðvörun UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna sem kom út í gær, eru hvergi fleiri börn á flótta í heiminum.

Metfjöldi barna er nú á flótta í Suður-Ameríku og Karíbahafinu en samkvæmt velferðarviðvörun UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna sem kom út í gær, eru börn á flótta á svæðinu fleiri en annarsstaðar í heiminum. Börnin fara helst eftir þremur flóttaleiðum, það er í gegnum Darién frumskóginn milli Kólumbíu og Panama, flýja frá Suður-Ameríku, og um flutningaleiðir í norðurhluta Mið-Ameríku og Mexíkó.

Samkvæmt Garry Conille, framkvæmdastjóra UNICEF í Suður-Ameríku og Karíbahafinu, eru sífellt fleiri börn á flótta á svæðinu, bæði eru þau yngri og frá ólíkum löndum, jafnvel frá Afríku og Asíu. „Aukið ofbeldi, óstöðugleiki, fátækt og loftslagsáhrif valda því að sífellt fleiri börn eru á flótta. Á ferð þeirra eru þau berskjölduð fyrir sjúkdómum, ofbeldi, og misnotkun og jafnvel þó þau komist á áfangastað er öryggi þeirra fjarri því tryggt,“ segir Conille.

Árið 2021 flúðu minnst 29 þúsund börn í gegnum hættulegan Darien-frumskóginn. Árið 2022 hækkaði sú tala upp í 40 þúsund börn og það sem af er ári hafa yfir 60 þúsund börn, helmingur þeirra undir fimm ára aldri, flúið í gegnum frumskóginn.

Upplýsingar frá bandarísku toll- og landamæragæslunni gefa einnig til kynna að meira en 149 þúsund börn hafi farið yfir landamærin yfir til Bandaríkjanna árið 2021, 155 þúsund börn árið 2022 og á fyrstu sjö mánuðum þessa árs hafa meira en 83 þúsund börn náð að landamærunum.

Um allan heim eru börn um 13 prósent alls fólks á flótta en á svæðinu í Suður-Ameríku og Karíbahafinu eru börn um 25 prósent þeirra sem eru á flótta sem er hæsta hlutfall í heimi. Upplýsingar UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, sýna einnig fram á að sífellt yngri börn séu á flótta í Suður-Ameríku og Karíbahafinu og að 91 prósent þeirra séu yngri en 11 ára. Flóttinn setur börn í aukna hættu á að verða fyrir misnotkun og ofbeldi.

Eins og 8 ára Angela, stúlka sem flúði í gegnum Darien frumskóginn árið 2022 segir, þá var það martröð líkast. Angela varð viðskila við foreldra sína í tvo daga og ferðaðist í heild í um 40 daga áður en fjölskyldan náði til landamæra Gvatemala.

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, vinnur af miklum krafti með samstarfsaðilum og stjórnvöldum á svæðinu til þess að stuðla að öruggum fólksflutningaleiðum, bjóða upp á mannúðaraðstoð og veita börnum nauðsynlega þjónustu.

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna heldur áfram að hvetja aðildarríki Sameinuðu þjóðanna til þess að tryggja réttindi, öryggi og velferð fólks og barna á flótta, meðal annars með því bæta aðgengi að nauðsynlegri þjónustu á svæðinu, setja af stað aðgerðir sem sporna gegn ofbeldi, tryggja menntunarmöguleika fyrir börn, ungt fólk og fjölskyldur, stækka öruggar flóttaleiðir fyrir börn og fjölskyldur, og efla fjölskyldusameiningarferli í aðildarlöndunum.  

Fleiri
fréttir

20. nóvember 2024

UNICEF: Framtíð barnæskunnar hangir á bláþræði í breyttum heimi 
Lesa meira

20. nóvember 2024

Ungmenni fá orðið á Alþjóðadegi barna: „Kæra fullorðna fólk– Hlustið á okkur“
Lesa meira

18. nóvember 2024

Þúsund dagar af stríði í Úkraínu: 16 börn drepin eða særð í hverri viku
Lesa meira
Fara í fréttasafn