Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, fundaði í dag með Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, utanríkisráðherra Íslands, í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York þar sem þær undirrituðu endurnýjun á rammasamning um kjarnaframlög íslenska ríkisins til UNICEF.
Líkt og greint hefur verið frá tilkynntu íslensk stjórnvöld fyrr á þessu ári að ákveðið hafi verið að hækka kjarnaframlög íslenska ríkisins til UNICEF umtalsvert. Framlagið hækkar úr 150 milljónum á ári í 230 milljónir, eða um ríflega 50%. Ísland er í hópi fyrirmyndarstyrktaraðila hjá UNICEF vegna hárra kjarnaframlaga og mikils stuðnings miðað við höfðatölu. UNICEF er sömuleiðis skilgreind sem ein af fjórum lykilstofnunum utanríkisráðuneytisins í marghliða þróunarsamvinnu Íslands.
Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF, hrósaði Íslandi í hástert á samfélagsmiðlinum X (áður Twitter) í kjölfar fundarins og sagði Ísland í sérflokki á heimsvísu þegar kemur að réttindum barna, jafnrétti kynjanna og stuðningi við mannúðarstarf UNICEF um allan heim.
Á sama tíma og fjölmargar þjóðir hafa dregið saman í framlögum sínum til þróunarsamvinnu fagnar UNICEF á Íslandi því að sjá íslensk stjórnvöld fara fram með góðu fordæmi og bæta í þetta mikilvæga starf svo um munar. Við getum öll verið stolt af því.