17. september 2025

Fordæmir fjögurra ára menntaútlegð unglingsstúlkna í Afganistan

„Engin þjóð getur þrifist þegar helmingur hennar er skilinn eftir.“

Ungar stúlkur við nám. Að óbreyttu endar skólaganga þeirra í sjötta bekk. Mynd/UNICEF/UNI831864/Khan

„Fjögur ár eru nú síðan unglingsstúlkum í Afganistan var bannað að mæta í skóla eftir 6. bekk. Í árslok mun 2,2 milljónum unglingsstúlkna hafa verið neitað um menntun á þessum tíma,“ segir Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF, í yfirlýsingu í dag þar sem hún gagnrýnir þessa útilokun stúlkna frá menntun harðlega og ítrekar ákall UNICEF til stjórnvalda að aflétta þessu skaðlega banni.

„Tvær milljónir Afgana snéru á þessu ári aftur heim frá nágrannaríkjum svo fjöldi stúlkna sem neitað verður um menntun verður enn hærri. Í kjölfar jarðskjálftans stóra á dögunum þar sem 1.172 börn týndu lífi hefur mikilvægi vel menntaðra og þjálfaðra kvenna í heilbrigðis- og félagsþjónustukerfinu aldrei verið eins hvellskýrt. Þessar konur eru ómissandi í neyðar- og mannúðarstörfum, sérstaklega í samfélögum þar sem aðskilnaður kynja gerir það að verkum að geta karlkyns starfsmanna til að hlúa að konum og er takmörkuð.“

„Ef viðhalda á þessum starfsstéttum og mörgum öðrum þá verður að mennta stúlkur. Á sama tíma og milljónir barna um allan heim snúa nú aftur í skólann er afgönskum stúlkum neitað um þessi grundvallarréttindi. Þetta er eitt mesta óréttlæti okkar tíma.

„Þetta bann er alvarleg ógn við stöðugleika og framþróun þessarar þjóðar. Engin þjóð getur þrifist þegar helmingur hennar er skilinn eftir. Ef Afganistan á að þróast áfram þá krefst það fullrar þátttöku karla og kvenna í hvívetna.“

„Stúlkur í Afganistan eru að missa af meiru en bara kennslustundum. Það er verið að svipta þær samskiptum, persónulegum vexti og tækifærinu til að móta framtíð sína og ná markmiðum sínum og draumum.“

„Sérstakar áhyggjur hef ég af þeim milljónum stúlkna sem nú eru bundnar við heimili sín og skaðleg áhrif einangrunar á þær. Samstarfsfólk mitt hjá UNICEF er að merkja aukna tíðni andlegra veikinda, hjónabanda yngri stúlkna og hærri fæðingartíðni. Allt þetta er hægt að koma í veg fyrir.

UNICEF ítrekar ákall sitt til byltingarstjórnarinnar að aflétta þessu skaðlega banni og leyfa öllum stúlkum í Afganistan að sækja skóla, allt frá grunnskóla, til framhaldsskóla og áfram.“

Fleiri
fréttir

17. september 2025

Fordæmir fjögurra ára menntaútlegð unglingsstúlkna í Afganistan
Lesa meira

11. september 2025

Fimmta hvert barn vannært í Gaza-borg
Lesa meira

03. september 2025

UNICEF varar við alvarlegum afleiðingum niðurskurðar á menntun barna
Lesa meira
Fara í fréttasafn