Yfirmenn sjö stofnana Sameinuðu þjóðanna, þar á meðal UNICEF, greina frá því í dag að tilkynningum um kynbundið ofbeldi gegn konum og stúlkum á flótta undan stríðsátökum í Súdan hefur aukist mikið síðan átök hófust í Afríkuríkinu fyrir rúmum 11 vikum. Stofnanirnar fordæma þessa þróun í yfirlýsingu í dag og kalla eftir aðgerðum og rannsóknum á öllum brotum.
Í yfirlýsingu frá æðstu stjórnendum Samhæfingarskrifstofu aðgerða SÞ í mannúðarmálum (OCHA), Mannréttindaskrifstofu SÞ, Flóttamannastofnun SÞ (UNHCR), UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, Mannfjöldasjóð SÞ (UNFPA), UN Women og Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) segir að binda þurfi enda á kynbundið ofbeldi, sem sé notað sé í mörgum tilfellum kerfisbundið í stríðsrekstri. Vernda þurfi alla almenna borgara samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum auk þess sem skala þurfi upp forvarnir gegn kynbundnu ofbeldi og viðbragðsþjónustu í Súdan og nágrannaríkjum þangað sem flóttafólk undan átökunum hefur leitað skjóls. Þörfin hafi stóraukist undanfarið.
4,2 milljónir í áhættuhópi
Áður en átökin hófust um miðjan apríl áætluðu Sameinuðu þjóðirnar að rúmlega 3 milljónir kvenna og stúlkna í Súdan væru í áhættuhópi fyrir kynbundið ofbeldi. Þessi tala hefur síðan farið upp í 4,2 milljónir.
Síðan átök hófust hefur Mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna í Súdan borist tilkynningar um 21 tilfelli stríðstengds kynferðislegs ofbeldis gegn að minnsta kosti 57 konum og stúlkum. Meðal þolenda voru minnst 10 stúlkur. Í einu tilfelli var allt að 20 konum nauðgað í sömu árásinni.
Aðgerðahópur á vegum súdanskra stjórnvalda sem berst gegn kynbundnu ofbeldi fær sífellt fleiri tilkynningar um kynferðislegt ofbeldi tengt stríðsátökunum. 42 tilfelli hafa verið skráð í höfuðborginni Khartoum og 46 önnur í Darfur-héraði. Í yfirlýsingu stofnana Sameinuðu þjóðanna segir að ljóst sé að óskrásettur fjöldi tilfella sé vafalaust meiri þar sem ekki séu öll brot formlega tilkynnt og þolendur beri oft harm sinn í hljóði og ótta.
Þolendum reynist sömuleiðis erfitt að leita sér aðstoðar vegna ástandsins í landinu þar sem víða sé aðgengi að mannúðaraðstoð skert, árásir á og umsátur um heilbrigðisstofnanir geri aðgengi að heilbrigðisþjónustu sömuleiðis erfitt og jafnvel ómögulegt.
Stofnanir Sameinuðu þjóðanna reyna þó allt hvað þær geta til að ná til þolenda og veita alla þá aðstoð sem mögulegt er við afar erfiðar og hættulegar aðstæður.
Í yfirlýsingu stjórnenda stofnana SÞ er haft eftir Catherine Russell, framkvæmdastjóra UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna:
„Við erum enn á ný að sjá óhugnanlega aukningu í skelfilegum kynferðisbrotum í miðjum stríðsátökum. Þetta er útbreiddur vandi en því miður einnig að mörgu leyti falinn. Þetta eru mannréttindabrot og glæpir sem geta haft skaðleg langtímaáhrif á líkamlega og andlega heilsu þolenda. Það er nauðsynlegt að koma þegar í stað á forvarnar- og viðbragðsáætlun sem setja þarfir kvenna, stúlkna og annarra þolenda í forgang.“
Neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi fyrir börn í Súdan er í fullum gangi og þau þurfa þinn stuðning.
Sendu SMS-ið NEYÐ í númerið 1900 (2.900 kr.)
Frjáls framlög:
Reikningsnúmer: 701-26-102020
Kennitala: 481203-2950