Fjórðungur sveitarfélaga á Íslandi vinna nú markvisst að því að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í allt sitt starf með stuðningi UNICEF á Íslandi og félagsmálaráðuneytisins. Þessum áfanga var náð í gær þegar sveitastjórar fimm sveitarfélaga undirrituðu samstarfssamning við UNICEF á Íslandi og félagsmálaráðuneytið um þátttöku í verkefninu Barnvæn sveitarfélög. Sveitarfélögin fimm eru Fjarðabyggð, Hrunamannahreppur, Rangárþing eystra, Seltjarnarnes og Vopnafjarðarhreppur og fyrr á árinu bættist Mosfellsbær einnig í hópinn. Með undirskriftinni í dag eru sveitarfélögin sem taka þátt í verkefninu því orðin 17 talsins og yfir helmingur barna á Íslandi búa í þeim.
„Ég er mjög ánægður með kraftinn sem sveitarfélög landsins hafa sett í verkefnið og nú er um fjórðungur sveitarfélaga á Íslandi að vinna í því að verða Barnvænt sveitarfélag. Það er mikið gleðiefni að sveitarfélög landsins setji málefni barna og fjölskyldna í svo skýran forgang og ómetanlegt að finna áhugann á verkefninu,“ Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra.
Þau sveitarfélög sem taka þátt í verkefninu vinna markvisst að því að gera réttindi barna að veruleika með stuðningi frá UNICEF á Íslandi og félagsmálaráðuneytinu.
„Undirskriftin eru mikil tímamót þegar við tökum þetta stóra skref í áttina að Barnvænu Íslandi. Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá fimm ólík sveitarfélög hefja vegferðina í sama skrefi því það undirstrikar að Barnasáttmálinn er algildur og öll sveitarfélög geta orðið barnvæn, “ sagði Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.
Börn vilja að þeim sé treyst
Í undirbúningi fyrir undirskriftina var leitað til barna í hverju sveitarfélagi og þau spurð að því hvað þeim finnst gera sveitarfélög barnvæn. Svörin létu ekki á sér standa en meðal þess sem börnunum datt í hug var aðgengi allra að menntun, vernd gegn ofbeldi, öruggt heimili fyrir öll börn og góð leiksvæði. Mörgum barnanna fannst vanta meira val hvað varðar íþróttir og þá nefndu þau t.d. að lengja mætti útivistartíma og bæta umferðaröryggi. Það sem koma einna skýrast fram er að það skiptir börnin miklu máli að fá tækifæri til þess að láta skoðanir sínar í ljós og hafa áhrif og þau telja mikilvægt að fullorðnir treysti börnum og virði skoðanir þeirra.
Verkefnið Barnvæn sveitarfélög miðar að því að byggja upp breiðfylkingu sveitarfélaga á Íslandi sem láta sér mannréttindi barna varða, með Barnasáttmálann að leiðarljósi og auknu samstarfi milli ríkis og sveitarfélaga. Árið 2019 gengu UNICEF á Íslandi og félagsmálaráðuneytið til samstarfs um framkvæmd verkefnisins undir formerkjunum Barnvænt Ísland. Markmið samstarfsins er að tryggja aðgengi allra sveitarfélaga að stuðningi við innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna á næstu tíu árum. Á næstu tveimur árum er stefnt að því að vel á annan tug sveitarfélaga bætist í hópinn sem nú þegar telur 17 sveitarfélög.
Nánari upplýsingar um Barnvæn sveitarfélög eru aðgengilegar á vefsíðunni www.barnvaensveitarfelog.is og geta áhugasamir einstaklingar, kjörnir fulltrúar og starfsfólk sveitarfélaga nálgast þar allar nauðsynlegar upplýsingar um innleiðingu Barnasáttmálans.