Um 181 milljón barna um allan heim undir fimm ára aldri lifa við alvarlega matarfátækt eða sem nemur einu af hverjum fjórum börnum. Þessi börn eru 50% líklegri til að glíma við rýrnun og önnur lífshættuleg afbrigði vannæringar. Frá þessu er greint í nýrri skýrslu UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, sem ber yfirskriftina Child Food Poverty: Nutrition Deprivation in Early Childhood.
Í skýrslunni er í fyrsta skipti greining á áhrifum og orsökum skorts og fábreytni í mataræði yngri barna í nærri 100 ríkjum, þvert á tekjuhópa. Í skýrslunni er vakin athygli á og varað við að milljónir barna undir fimm ára aldri um allan heim hafa hvorki aðgengi að né neyti nægilega næringarríkrar og fjölbreyttrar fæðu til að viðhalda ákjósanlegum vexti og þroska á þessum fyrstu árum barnæskunnar.
En hvað er matarfátækt?
Hér er ekki aðeins verið að ræða um skort á fæðu heldur einkum og sér í lagi ástand þar sem mataræði er einsleitt og næringarlítið. Er það skilgreint þannig að börn sem borða í mesta lagi úr aðeins tveimur af átta skilgreindum fæðuhópum séu álitin búa við alvarlega matarfátækt.
Ef börn fá að borða úr:
0-2 fæðuhópum á dag búa þau við alvarlega matarfátækt.
3-4 fæðuhópum á dag búa þau við miðlungs matarfátækt.
5 eða fleiri fæðuhópum á dag búa þau ekki við matarfátækt.
Fjögur af hverjum fimm börnum sem búa við alvarlega matarfátækt fá aðeins brjóstamjólk/mjólk og/eða mjölvaríka uppistöðufæðu eins og hrísgrjón, maís eða hveiti. Undir 10 prósent þessara barna fá ávexti eða grænmeti að borða og innan við 5 prósent þeirra fá næringarríka fæðu á borð við egg, fisk eða kjöt.
Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF, segir í fréttatilkynningu vegna útkomu skýrslunnar að staða þessara barna sé grafalvarleg. „Matarfátækt er raunveruleiki milljóna ungra barna um allan heim og getur haft skaðleg áhrif á líf, vöxt og þroska þeirra til frambúðar.“
Hvað veldur?
Skýrslan bendir á að þó mörg ríki séu enn að jafna sig á félags- og efnahagslegum áhrifum heimsfaraldursins þá séu það vaxandi ójöfnuður, stríðsátök og afleiðingar hamfarahlýnunar sem helst sé um að kenna. Allt ofangreint hafi orðið til þess að matvælaverð hefur rokið upp úr öllu valdi sem og framfærslukostnaður sem náð hafi methæðum.
Annað áhyggjuefni er að 65% af þessum ríflega 180 milljónum barna sem búa við alvarlega matarfátækt koma frá aðeins 20 ríkjum. Um 64 milljónir eru í Suður-Asíu og 59 milljónir í Afríku neðan Sahara.
Svo dæmi sé tekið í Sómalíu, þar sem íbúar búa við átök, þurrka og hamfaraflóð, eru 63% barna í matarfátækt. Í viðkvæmustu samfélögunum greindu 80% foreldra eða forráðamanna frá því að barn þeirra hafi upplifað að fá ekkert að borða í heilan sólarhring.
Margvíslegir áhrifaþættir
Fjölmargir þættir hafa vissulega áhrifa á matarfátækt barna víða um veröld, þ.á.m. matvælakerfi ríkja sem ekki geta veitt börnum og fjölskyldum þeirra næringarríka, trygga og aðgengilega valkosti, efnahagslega aðstæður fjölskyldna og hvort þær hafi ráð á næringarríkri fæðu og vandkvæði foreldra til að tileinka sér og viðhalda jákvæðu mataræði innan fjölskyldunnar.
Þá má ekki gleyma að í sumum tilfellum þá eru ódýr, næringarsnauð, óholl og mikið unnin matvæli og sykraðir drykkir ágengt markaðssettir til foreldra og barna og sums staðar hið nýja „norm“ í mataræði og neyslu. Skýrslan greinir frá því að þessarar óhollustu sé neytt í miklum mæli í samfélögum þar sem börn eru í matarfátækt.
Líka jákvæð teikn á lofti
Þrátt fyrir allt ofangreint þá hefur marktækur árangur náðs. Sem dæmi má nefna Búrkína Fasó þar sem hlutfall barna í alvarlegri matarfátækt hefur helmingast, úr 67% árið 2010 í 32 prósent árið 2021. Í Nepal sömuleiðis var hlutfall barna í alvarlegri matarfátækt 20% árið 2011 en 8% árið 2022. Perú hefur náð að halda hlutfallinu undir 5% síðan 2014 á sama tíma og þjóðin hefur verið í langvarandi efnahagsvanda og í Rúanda hefur hlutfallið farið úr 20% árið 2010 í 12% árið 2020.
Þar sem árangur sem þessi næst er því öðrum ríkjum og heimshlutum hvatning og veitir von um að vel sé hægt að snúa þróun mála við. En til þess þarf víðtækt samstarf, fjárfestingu og vilja hjá stjórnvöldum.
Ákall UNICEF
Til að binda enda á matarfátækt skorar UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, á stjórnvöld, þróunar- og mannúðarstofnanir, styrkveitendur, borgarleg samfélög og matvæla- og drykkjarvöruiðnaðinn að:
- Ráðast í gagngerar umbætur á matvælakerfum svo tryggja megi að næringarrík, fjölbreytt og holl fæða verði aðgengileg, hagstæðari og ákjósanlegri fyrsti valkostur fyrir umönnunaraðila með börn á framfæri.
- Að beita heilbrigðiskerfum til að veita nauðsynlega næringarþjónustu til að koma í veg fyrir meðhöndla vannæringu frá frumbernsku og styðja heilbrigðis- og næringarstarfsfólk til að veita foreldrum og fjölskyldum ráðgjöf um hvað sé börnum fyrir bestu í mataræði og umönnun.
- Virkja félagslega kerfið til að taka á fátækt fjölskyldna hvort heldur sem er með peninga-, matar-, eða matarmiðastyrkjum þannig að það nýtist matar- og næringarþörfum barna í viðkvæmri stöðu og fjölskyldum þeirra.
Styðja þarf CNF-næringarsjóðinn
Til að hraða aðgerðum til að koma í veg fyrir, greina og meðhöndla alvarlega matarfátækt og vannæringu kom UNICEF á fót Child Nutrition Fund (CNF) í fyrra með stuðningi frá UK Foreign Commonwealth and Development Office (FCDO), Sjóði Bill og Melindu Gates og Children‘s Investment Fund Foundation (CIFF). UNICEF leiðir CNF-sjóðinn ásamt fjölda samstarfsaðila til að fjármagna og skapa hvata innan ríkja til að fjárfesta í leiðum til að uppræta vannæringu barna.
UNICEF skorar á stjórnvöld, styrkveitendur og fjárhagslega samstarfsaðila til að styðja CNF og forgangsraða sjálfbærum stefnumálum og starfsháttum til að uppræta alvarlega matarfátækt barna og vannæringu.
Lesa má skýrsluna Child Food Poverty: Nutrition Deprivation in Early Childhood í heild sinni hér.