04. október 2023

Ein milljón barna ekki í skóla í Búrkína Fasó vegna viðvarandi ofbeldis og óöryggis

Rúmlega 6 þúsund skólum hefur verið lokað og 52 þúsund manns eru á vergangi í Búrkína Fasó. UNICEF er á staðnum og stuðlar að því að 3,8 milljónir barna fái menntun

Um ein milljón barna eru utan skóla og 31 þúsund kennarar verkefnalausir vegna viðvarandi ofbeldis og átaka í Búrkína Fasó. Einum af hverjum fjórum skólum, eða rúmlega 6 þúsund skólum hefur verið lokað af öryggisástæðum.  

Fjölskyldur hafa neyðst til þess að flýja heimili sín og finna athvarf annarsstaðar og hafa rúmlega 230 skólar verið nýttir sem bráðabirgðahúsnæði fyrir meira en 52 þúsund manns sem eru á vergangi innanlands.

John Agbor, fulltrúi UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna í Búrkína Fasó segir það mjög flókna stöðu að svona mikill fjöldi barna geti ekki stundað nám vegna átaka í landinu. „Við höldum áfram starfi okkar og reynum eftir fremsta megni að tryggja að hvert barn í Búrkína Fasó hafi aðgang að menntun og geti uppfyllt drauma sína í friði og öryggi í landinu,“ segir Agbor.

UNICEF stuðlar að menntun barna í Búrkína Fasó

Menntamálaráðuneyti Búrkína Fasó ásamt UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna og samstarfsaðilum vinna nú að því að koma 3,8 milljónum barna aftur í skóla og tryggja þeim menntun, sérstaklega á svæðum sem hafa orðið verst úti líkt og Boucle du Mouhoun og Sahel.

Það sem af er þessu ári hefur UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna tryggt 763 þúsund börnum menntun með því meðal annars að betrumbæta starfsþjálfun kennara og dreifa yfir 150 þúsundum af námsgögnum til barna. Lögð hefur verið áhersla á menntun í gegnum útvarpsþætti og hefur 2670 útvarpstækjum verið dreift ásamt 435 leik- og afþreyingarpökkum sem mæta þörfum yfir 37 þúsund barna.

Fram til þessa hefur UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, einnig stutt við verkefnið „Quality Child-Friendly Schools“ og menntað yfir 350 kennara samkvæmt þeim stöðlum. Að minnsta kosti 756 stúlkur og drengir hafa fengið þjálfun í mannlegum samskiptum, eflingu friðar, og félagslegri samheldni. Einnig hefur verið náð til yfir 76 þúsund foreldra og umönnunaraðila með upplýsingar um mikilvægi menntunar og hvatningu til þess að skrá börn í skóla.

Þörf á aukinni mannúðaraðstoð

Þrátt fyrir árangur er mikilvægt að sofna ekki á verðinum og eru enn 5,5 milljónir íbúa Búrkína Fasó sem þurfa á mannúðaraðstoð að halda. Þar á meðal eru 3,2 milljónir barna sem hafa upplifað sinn skerf af átökunum í landinu. Yfir 2 milljónir manna hafa neyðst til þess að flýja heimili sín og eru börn 58 prósent þeirra.

Því er stuðningur heimsforeldra virkilega mikilvægur en heimsforeldrar stuðla að því að börn fái lífsbjargandi næringu og þjónustu.

Þegar þú ert Heimsforeldri styður þú við mannúðaraðstoð og langtímaverkefni UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, í löndum Afríku og yfir 190 öðrum ríkjum um allan heim. SMELLTU HÉR TIL AÐ SJÁ HVERNIG ÞÚ GETUR ORÐIÐ HEIMSFORELDRI STRAX Í DAG.   

Fleiri
fréttir

20. nóvember 2024

UNICEF: Framtíð barnæskunnar hangir á bláþræði í breyttum heimi 
Lesa meira

20. nóvember 2024

Ungmenni fá orðið á Alþjóðadegi barna: „Kæra fullorðna fólk– Hlustið á okkur“
Lesa meira

18. nóvember 2024

Þúsund dagar af stríði í Úkraínu: 16 börn drepin eða særð í hverri viku
Lesa meira
Fara í fréttasafn