08. október 2021

Draumurinn að allir skólar verði Réttindaskólar UNICEF

Sigyn Blöndal, nýr Réttindaskólastjóri UNICEF á Íslandi, segir draum sinn að allir skólar verði Réttindaskólar enda sýni reynslan að það hafi jákvæð áhrif á börn að þekkja réttindi sín.

8. október 2021 Gríðarleg ásókn er nú í verkefnið Réttindaskólar og –frístund UNICEF en nýverið hófu nítján skólar, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar innleiðingu á verkefninu sem stýrt er af innanlandsteymi UNICEF á Íslandi. Sigyn Blöndal, nýr Réttindaskólastjóri UNICEF á Íslandi, segir draum sinn að allir skólar verði Réttindaskólar enda sýni reynslan að það hafi jákvæð áhrif á börn að þekkja réttindi sín.

Það sem hófst sem þróunarverkefni UNICEF á Íslandi árið 2016 með þátttöku þriggja skóla, eins frístundaheimilis og félagsmiðstöðvar er nú orðið að umfangsmiklu og eftirsóttu verkefni fyrir skóla og aðra sem starfa með börnum og ungmennum. Sem stendur eru nú 48 slíkar starfsstöðvar á landinu sem ýmist hafa lokið eða eru í innleiðingarferli Réttindaskólaverkefnisins.

„Fyrirmyndin kemur upprunalega frá Bretlandi þar sem eru nokkur þúsund réttindaskólar en við höfum þá sérstöðu hér á Íslandi að við tökum frístundaheimilin og félagsmiðstöðvar með. Réttindi barna hætta nefnilega ekki klukkan tvö á daginn. Okkar markmið er að kveikja áhuga og eldmóð hjá öllum sem vinna með börnum, sem og foreldrum og forráðamönnum, á réttindum barna,“ segir Sigyn.

En hvað þýðir það að vera Réttindaskóli eða –frístund UNICEF?

Innleiðing á verkefninu þýðir að skólar, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar skuldbinda sig til að auka fræðslu sína á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Að börn læri að þekkja og nota réttindi sín fyrir sig sjálf og aðra, auka virðingu, vernd og innleiða lýðræði og mannréttindi í skóla– og frístundastarf. Áhersla er lögð á að skapa umhverfi þar sem börn taka þátt í að móta umhverfi sitt, umhverfi sem byggir á jafnrétti og virðingu. Réttindaskólaverkefnið er því bæði hugmyndafræði og hagnýtt tæki sem nýtist í skóla- og frístundastarfi. Nú þegar Barnvænum sveitarfélögum fjölgar hratt og stefna stjórnvalda sett á Barnvænt Ísland með markvissri innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, styður það allt saman vel við Réttindaskólaverkefnið.

Fyrstu Réttindaleikskólar heims á Íslandi

Sigyn segir að UNICEF á Íslandi láti ekki staðar numið þar, því nú þegar komin sé jákvæð reynsla á verkefnið á grunnskólastigi sé vinna hafin við að þróa Réttindaleikskóla UNICEF.

„Þar erum við í miklu frumkvöðlastarfi því ekki hefur verið ráðist í þá vinnu annars staðar í heiminum. Réttindafræðsla á leikskólastigi hefur vissulega verið til staðar fyrir börn og kennara en við erum að tala um mælingar á árangri fyrir börnin sjálf. Við viljum sjá raunverulegar breytingar til hins betra fyrir börnin. Í samstarfi við leikskólakennara, Menntavísindasvið Háskóla Íslands og nítján leikskóla í Reykjavík, Kópavogi, Borgarbyggð og Akureyri, erum við að þróa þetta mælitæki. Verkefnið er mjög spennandi og ef fram heldur sem horfir er líklegt að á næstu tveimur árum verði veittar viðurkenningar til fyrstu Réttindaleikskólana í heiminum.“

Þekking á réttindum hefur jákvæð áhrif á börn og samfélög

Sigyn, sem gekk til liðs við UNICEF á Íslandi sem verkefnastjóri Réttindaskóla og –frístundar UNICEF í sumar, segir drauminn að allir skólar verði Réttindaskólar eða fái í það minnsta tækifæri til að þekkja réttindi sín og nota þau fyrir sig sjálf og aðra.

„Það er margsannað að börn sem þekkja réttindi sín eru umburðarlyndari, virða betur fjölbreytileika og eru líklegri til að taka afstöðu gegn einelti og öðru ranglæti. Þau standa betur vörð um eigin réttindi og annarra, auk þess eru þau betur undirbúin til að leita aðstoðar ef þau verða fyrir ofbeldi, misnotkun af einhverju tagi eða ef brotið er á réttindum barna að öðru leyti. Það er hagur barna og samfélagsins að allir þekki og virði réttindi bara. Við fullorðna fólkið þurfum ekki síður að þekkja réttindi þeirra og virða þau, skapa umgjörð sem styður við þessi réttindi hvort heldur sem er í skólanum eða heima fyrir. Við þurfum að ræða við börnin og virða þeirra skoðanir því það eru þeirra réttindi. Það hefur stundum vantað svolítið upp á það hjá okkur fullorðna fólkinu almennt, finnst mér.“

Fleiri
fréttir

20. nóvember 2024

UNICEF: Framtíð barnæskunnar hangir á bláþræði í breyttum heimi 
Lesa meira

20. nóvember 2024

Ungmenni fá orðið á Alþjóðadegi barna: „Kæra fullorðna fólk– Hlustið á okkur“
Lesa meira

18. nóvember 2024

Þúsund dagar af stríði í Úkraínu: 16 börn drepin eða særð í hverri viku
Lesa meira
Fara í fréttasafn