07. apríl 2022

Nóg komið af linnulausu ofbeldi gegn börnum í Kongó

Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF, heimsótti átakasvæði í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó á dögunum og kallar eftir pólitískri lausn til að vernda saklausa borgara

Hin 12 ára gamla Esther frá Goma í Kongó sækir vatn í brúsa úr vatnskrönum sem UNICEF hjálpaði við að koma upp. Mynd/UNICEF

Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, kallar eftir tafarlausri pólitískri lausn til að binda enda á viðvarandi ofbeldisverk í austurhluta Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó. Russell hefur sent frá sér yfirlýsingu eftir heimsókn í Ituri-hérað þar sem árásir á almenna borgara hafa verið hvað verstar.

Á meðan á heimsókn Russel stóð fór hún til Rhoe þar sem áætlað er að 63 þúsund manns, þar af 36 þúsund börn, búi nú í flóttamannabúðum við slæmar aðstæður. Öll eiga þau það sameiginlegt að hafa neyðst til að flýja heimili sín vegna átaka og og mörg þeirra mátt flýja oftar en einu sinni milli flóttamannabúða undanfarna mánuði.

Horfði á sinn besta vin myrtan
Russell ræddi við börn og fjölskyldur sem hafa mátt lifa við árásir og ofbeldi. Þar á meðal hinn 14 ára gamla Blukwa sem slapp naumlega frá árás í Drodro í nóvember síðastliðnum.

„Hann sagði mér að eftir að hafa horft upp á besta vin sinn myrtan hafi hann viljað deyja líka. Ekkert barn ætti að þurfa að upplifa harmleik og hrylling sem þennan,“ segir Russell í yfirlýsingu sinni. „Síðustu tvo áratugi hafa ótal börn í austurhluta Kongó mátt þjást vegna átaka og linnulausra árása á saklausa borgara. Þessi börn þurfa tafarlausa pólitíska lausn á þessu ástandi og frið.“

Í árásunum á Drodro urðu Blukwa og fjöldi annara barna viðskila við fjölskyldur sínar í glundroðanum sem fylgdi. Nærri sextíu börn hafa síðan þá verið sameinuð fjölskyldum sínum í gegnum kongósku hjálparsamtökin AJEDEC, sem nýtur stuðnings UNICEF.

Mannúðarsamtök sæta árásum
Ástandið er alvarlegt í flóttamannabúðunum í Rhoe vegna áframhaldandi árása síðustu vikur. Þar til nýlega var aðeins hægt að komast með hjálpargögn að búðunum með þyrlu af öryggisástæðum og ítrekaðra árása á starfsfólk mannúðarsamtaka.

„Þúsundir barna og fjölskyldna eru nú í raun króuð af á afskekktri hæð með afar takmarkað öryggi, skjól eða aðgengi að nauðsynlegri þjónustu eins og vatni, hreinlætisaðstöðu, menntun, heilbrigðisþjónustu og næringu,“ segir Russell. „Við höfum þegar séð faraldur öndunarfærasjúkdóma, niðurgangs og malaríu geisa hér. Leggja þarf höfuðáherslu á að tryggja öruggt aðgengi að búðunum í Rhoe og vernda íbúa þeirra fyrir ofbeldisverkum.“

UNICEF hefur ásamt samstarfsaðilum aukið neyðaraðstoð sína við börn og fjölskyldur í Rhoe til að koma til þeirra margvíslegum nauðsynjum á borð við teppi, fötur, vatnsbrúsum, áhöldum og sápu. En UNICEF vinnur einnig að því með samstarfsaðilum að tryggja menntun og sálrænan stuðning við börn í búðunum.


Það er í verkefnum sem þessum í Kongó sem framlög Heimsforeldra UNICEF nýtast til góðra verka. Með mánaðarlegum framlögum styðja Heimsforeldrar við störf UNICEF í þágu barna í yfir 190 löndum. Komdu í Heimsforeldrahópinn í dag.

Fleiri
fréttir

20. nóvember 2024

UNICEF: Framtíð barnæskunnar hangir á bláþræði í breyttum heimi 
Lesa meira

20. nóvember 2024

Ungmenni fá orðið á Alþjóðadegi barna: „Kæra fullorðna fólk– Hlustið á okkur“
Lesa meira

18. nóvember 2024

Þúsund dagar af stríði í Úkraínu: 16 börn drepin eða særð í hverri viku
Lesa meira
Fara í fréttasafn