1. febrúar 2022 „Það er mikill heiður og forréttindi að ganga til liðs við UNICEF og leggja mitt af mörkum til að leiða ótrúlegt starf stofnunarinnar fyrir börn um allan heim á svo mikilvægum tímapunkti í sögunni,“ segir Russell í tilkynningu.
Tilkynnt var um ráðningu Russell í desember síðastliðnum en hefur hún nú formlega verið sett í embætti og tekur þar með við af Henriettu Fore sem gegnt hafði starfinu frá því í ársbyrjun 2018 við góðan orðstír. Fore hafði beðist lausnar úr embætti í ágúst síðastliðnum af persónulegum ástæðum vegna veikinda eiginmanns hennar.
Catherine Russell hefur víðtæka reynslu af stjórnunarstörfum í bandaríska stjórnkerfinu og kemur með mikla sérfræðiþekkingu inn í starf UNICEF. Frá 2020 til 2022 var hún aðstoðarmaður forseta Bandaríkjanna og skrifstofustjóri starfsmannamála forsetans í Hvíta húsinu. Þar áður hafði hún frá árinu 2013 til 2017 verið sendiherra fyrir Global Women‘s Issues í utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna. Í þeirri stöðu bar hún ábyrgð á að innleiða hagsmuna-, réttinda- og baráttumál kvenna í alla þætti utanríkisstefnu Bandaríkjanna, var fulltrúi Bandaríkjanna í yfir 45 löndum, vann með erlendum stjórnvöldum, alþjóðasamtökum og félögum í almannaþágu. Þá var hún í forsvari fyrir innleiðingu framtaksins „U.S Global Strategy to Empower Adolescent Girls“ sem þykir mikið tímamótastefnumál.
Þar áður hafði hún starfað sem staðgengill aðstoðarmanns Bandaríkjaforseta í tíð Baracks Obama, yfirráðgjafi utanríkismálanefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings í alþjóðlegum málefnum kvenna svo fátt eitt sé nefnt.
„Á tímum sem þessum þar sem milljónir barna standa frammi fyrir því að takast á við afleiðingar heimsfaraldurs Covid og annarra erfiðleika er UNICEF í fremstu röð til að verja réttindi þeirra og framtíð. Ég hlakka mikið til vinnunnar sem framundan er,“ segir Russell í tilkynningu frá UNICEF.
Catherine Russell er áttundi framkvæmdastjóri í sögu UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna og býður landsnefnd UNICEF á Íslandi hana hjartanlega velkomna til starfa.