18. nóvember 2022

Átök og ofbeldi kostað hundruð barna lífið í Mið-Austurlöndum og N-Afríku á árinu

Skelfilegar fregnir af frelsissviptingu og morðum á börnum Íran segir UNICEF

Átök, skálmöld og ofbeldisverk hafa kostað nær 580 börn lífið í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku það sem af er þessu ári. Í aðdraganda Alþjóðadags barna kallar UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna eftir tafarlausri vernd fyrir börn og réttindi þeirra.

Aukin átök og órói í þessum heimshlutum hafa gert það að verkum að 10 börn að meðaltali láta lífið í hverri viku í ríkjum þar um slóðir og enn fleiri særast.

„Þetta er óásættanleg staða,“ segir í yfirlýsingu frá UNICEF í dag.

Átök og ofbeldisverk þessi koma verst niður á börnum og eru af margvíslegum toga í ríkjum á borð við Íran, Írak, Líbíu, Súdan, Sýrland, Jemen og í átökum Ísraels og Palestínu.

„Í Íran lýsir UNICEF gríðarþungum áhyggjum af fregnum af því að börn séu myrt, særð eða tekin höndum þar í landi. Engin opinber tölfræði er til yfir þessi atvik, en síðan í september síðastliðnum er áætlað að 50 börn hafi látist. Nýjasta slíkt skelfilega dæmið er hinn tíu ára gamli Kiyan sem var skotinn til bana þegar hann var í bíl með fjölskyldu sinni. Þetta er skelfilegt og verður að stoppa,“ segir í tilkynningunni.

Einnig er rifjað upp að í vikunni hafi tvær ungar stúlkur fundist látnar í Al-Hol flóttamannabúðunum í norðurhluta Sýrlands. Eitt af mörgum hrottafengnum ofbeldisverkum í þeim búðum. Í Jemen sæta börn enn árásum nú þegar vopnahlé, sem þó dró verulega úr mannfalli og átökum, er runnið út.

Fyrr í vikunni var 14 ára palestínsk stúlka myrt nærri Ramallah og tala látinna barna þar í landi nú 49 frá upphafi árs. Í Líbíu létust þrjú börn í átökum í Tipoli fyrr á þessu ári. 65 börn hafa látið lífið eða særst vegna stríðsleifa í Írak það sem af er þessu ári. Og svo mætti lengi telja. Allt er þetta óásættanlegt með öllu.

„UNICEF er uggandi yfir þeirri staðreynd að börn haldi áfram að gjalda átök og ofbeldisverk dýru verði. Ríki sem aðild eiga að Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna ber skylda til að vernda börn í stríði og átökum af öllu tagi. Réttindi barna um vernd gegn ofbeldi er ófrávíkjanleg skylda allra, líka stríðandi fylkinga, sem ber að virða og viðhalda í einu og öllu. Ofbeldi er ALDREI lausnin og ofbeldi gegn börnum er ALDREI hægt að afsaka.“

Fleiri
fréttir

20. nóvember 2024

UNICEF: Framtíð barnæskunnar hangir á bláþræði í breyttum heimi 
Lesa meira

20. nóvember 2024

Ungmenni fá orðið á Alþjóðadegi barna: „Kæra fullorðna fólk– Hlustið á okkur“
Lesa meira

18. nóvember 2024

Þúsund dagar af stríði í Úkraínu: 16 börn drepin eða særð í hverri viku
Lesa meira
Fara í fréttasafn