Rúmlega 11 þúsund börn hafa látið lífið eða særst í átökunum í Jemen síðan þau hófust árið 2015. Það jafngildir um fjórum börnum á dag samkvæmt staðfestum tölum Sameinuðu þjóðanna en ætla má að þessar tölur séu hærri í raun. Þó að vopnahlé sem komið var á fyrir tilstilli Sameinuðu þjóðanna hafi dregið verulega úr átökum þá hafa 62 börn látið lífið eða særst síðan það vopnahlé rann út í byrjun október þar til í lok nóvember. Að minnsta kosti 74 börn voru á meðal þeirra 164 einstaklinga sem létu lífið eða særðust vegna jarðsprengja og annarra ósprunginna stríðsleifa á tímabilinu júlí til september á þessu ári.
Nær átta árum síðan stríðið í Jemen braust út þurfa nú 23,4 milljónir einstaklinga, þar af nærri 12,9 milljónir barna, á mannúðaraðstoð og vernd að halda í hinu stríðshrjáða ríki. UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, áætlar að 2,2 milljónir jemenskra barna glími við alvarlega vannæringu, þar af er rúmlega hálf milljón barna undir fimm ára sem þjáist af alvarlegri bráðavannæringu og eru í lífshættu.
„Í heimsókn minni á sjúkrahús í Aden nýverið hitti ég fyrir hin sjö mánaða gamla Yasin og móður hans Söbu. Hver einasti dagur hjá fjölskyldum eins og þeim er barátta upp á líf og dauða,“ segir Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF. „Þúsundir barna hafa látið lífið, hundruð þúsunda eru í lífshættu vegna sjúkdóma og hungurs sem svo auðveldlega mætti koma í veg fyrir. Yasin litli er aðeins einn af ótal vannærðum börnum í Jemen sem þurfa tafarlaust á stuðningi, vernd og þjónustu að halda.“
Rúmlega 17,8 milljónir íbúa Jemen, þar af 9,2 milljónir barna, hafa ekki aðgengi að öruggu drykkjarvatni og hreinlætisaðstöðu. Aðeins helmingur heilbrigðisstofnana Jemen er starfhæfur og þýðir það að 22 milljónir íbúa hafa ekki tryggt aðgengi að heilbrigðisþjónustu.
Nauðsynlegar bólusetningar barna hafa einnig staðið í stað en 28 prósent barna undir eins árs hafa ekki fengið grunnbólusetningar.
„Eigi börn í Jemen að eiga möguleika á sómasamlegri framtíð þurfa stríðandi fylkingar að leggja niður vopn. Alþjóðasamfélagið og öll þau sem áhrifum valda þurfa að tryggja öryggi þeirra og vernd,“ segir Russell.
UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, áætlar að 484 milljónir dala þurfi til að bregðast við mannúðarkrísunni í Jemen á næsta ári. Og þrátt fyrir áskoranir ársins sem nú er að líða þá tókst UNICEF á árinu að:
- Tryggja rúmlega 260 þúsund börnum meðferð við alvarlegri bráðavannnæringu á 4.584 heilsugæslustofnunum og 34 næringarmiðstöðvum.
- Veita nærri 1,5 milljónum heimila beinan fjárstuðning sem 9 milljónir einstaklinga nutu góðs af.
- Veita 4,7 milljónum einstaklinga öruggt og viðvarandi aðgengi að hreinu vatni
- Bólusetja 1,6 milljón barna gegn mislingum og mænusótt.
- Veita rúmlega 254 þúsund börnum og forráðamönnum sálfræðiaðstoð og rúmlega 423 þúsund börnum og íbúum fræðslu um jarðsprengjuhættu.
- Ná til 1,6 milljóna íbúa í afskekktum samfélögum og veita þeim aðgengi að heilbrigðisþjónustu.