30. ágúst 2024

Tvær milljónir barna í hættu eftir verstu flóð í 30 ár í Bangladess

UNICEF bregst við neyð milljóna í austurhluta landsins – Börn og fjölskyldur innlyksa án matar og hjálpargagna

Þessi fjölskylda í Feni í Bangladess ferjar eigur sínar og börn á fleka. Mynd/UNICEF

Rúmlega tvær milljónir barna í austurhluta Bangladess eru í hættu eftir að verstu hamfaraflóð í rúmlega þrjá áratugi urðu þar í vikunni. Heimili, skólar og heilu þorpin gjöreyðilögðust og UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, hefur hafið neyðaraðstoð vegna þeirra 5,6 milljóna einstaklinga sem hamfarirnar hafa áhrif á.

Helstu ár flæddu yfir bakka sína í fordæmalausum monsúnrigningum með þeim afleiðingum að rúmlega 50 hafa látið lífið og hálf milljón íbúa neyðst til að leita skjóls. Milljónir barna og fjölskyldna eru innlyksa án matar og hjálpargagna og víða er aðgengi takmarkað og ástandið talið líklegt til að versna á áframhaldandi rigningatímabili.

„Þessi skelfilegu flóð í austurhluta Bangladess eru sorgleg áminning um miskunnarlaus áhrif veðuröfga og loftslagsbreytinga á börn,“ segir Emma Brigham, fulltrúi UNICEF í Bangladess.

„UNICEF er á vettvangi og í fremstu víglínu að veita neyðaraðstoð og útdeila lífsnauðsynlegum hjálpargögnum. Ljóst er að stóraukið fjármagn þarf til þessa risavaxna verkefnis.“

UNICEF hefur verið á vettvangi hamfaranna frá byrjun og meðal annars unnið með stjórnvöldum að fyrsta mati á aðstæðum og umfangi. UNICEF hefur með samstarfsaðilum náð til rúmlega 338 þúsund einstaklinga, þar af 130 þúsund barna og veitt þeim nauðsynleg hjálpargögn og mannúðaraðstoð. Meðal annars 3,6 milljónir vatnshreinsitöflur, vatnsgeyma og aðrar nauðsynjar þar sem nauðsynlegir innviðir eru ónýtir. Hreint drykkjarvatn er bráðnauðsynlegt í kjölfar hamfara. En betur má ef duga skal og UNICEF kallar eftir ríflega 35 milljónum dala til að veita nauðsynlega mannúðaraðstoð.

Fleiri
fréttir

17. september 2024

Leikarar framtíðarinnar fara á kostum í nýrri auglýsingu UNICEF á Íslandi 
Lesa meira

13. september 2024

UNICEF eykur viðbragð sitt við mpox-faraldri í Kongó
Lesa meira

10. september 2024

Enginn fyrsti skóladagur hjá 45 þúsund fyrstubekkingum á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn