Líkt og almennt með stóra jarðskjálfta þá eru börn og fjölskyldur í mestu hættunni en Sameinuðu þjóðirnar áætla að meira en 300 þúsund manns hafi orðið fyrir áhrifum skjálftans, bæði í Marrakesh og í Atlas-fjöllunum.
Yfirvöld staðfesta að yfir 2600 manns hafi nú þegar látið lífið, þar á meðal börn, og fastlega er búist við að sú tala muni hækka enn frekar. Samkvæmt upplýsingum UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, eru börn um þriðjungur íbúa í Marokkó og eru börn á svæðinu því í mikilli hættu.
Þúsundir heimila hafa eyðilagst og fjölskyldur hrakist á brott auk þess sem skólar, sjúkrahús og aðrar mikilvægar stofnanir urðu einnig illa úti í skjálftanum. UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, er nú í viðbragðsstöðu til að aðstoða og styðja stjórnvöld í Marokkó í komandi verkefnum.
Með því að senda SMS-ið UNICEF í númerið 1900 styrkir þú UNICEF um 2.900 kr. og hjálpar okkur að vera til staðar og bregðast skjótt við neyðaraðstæðum barna um allan heim.