Gert er ráð fyrir að árið 2024 þurfi börn um allan heim á lífsnauðsynlegri mannúðaraðstoð að halda. Til að bregðast við sláandi aukningu fjölda barna í neyð, sem búa ýmist við átök, hamfarir, sjúkdóma, vannæringu eða áhrif loftslagsbreytinga stefnir UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, á að ná til 93,7 milljóna barna um allan heim.
„Milljónir barna á heimsvísu standa frammi fyrir flóknum og umfangsmiklum mannúðarkrísum árið 2024. Aukið fjármagn er nauðsynlegt til þess að gera UNICEF og samstarfsaðilum kleift að styðja við börn í neyð frá því augnabliki sem neyðarástand skellur á, en einnig undirbúa börn og samfélög undir framtíðar áskoranir,“ sagði Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF.
Þessi árlega aðgerðaráætlun og mat UNICEF á fjárþörf komandi árs undirstrikar hversu brýnt það er að takast á við þær áskoranir sem herja sérstaklega á börn. Á átakasvæðum búa börn við ofbeldi og landflótta, standa daglega frammi ógnum af líkamlegum skaða, tilfinningalegum og sálrænum áföllum, takmörkunum á menntun og annarri nauðsynlegri þjónustu. Samtímis glíma börn á ólíkum svæðum um heiminn við aukna hættu á misnotkun vegna viðvarandi ofbeldis.
Versnandi loftslagsbreytingar auka einnig umfang neyðarinnar en börn bera þungann af umhverfisáskorunum sem stofna heilsu þeirra og lífi í hættu, skapa matar- og vatnsóöryggi og takmarka aðgang þeirra að menntun.
Mikil neyð á árinu sem er að líða
Fyrri hluti ársins 2023 einkenndist meðal annars af ósveigjanlegu fjármagni sem hafði áhrif á getu mannúðarstarfsfólks til þess að bregðast hratt og örugglega við neyðarástandi og vaxandi þörf barna og fjölskyldna víðsvegar um heiminn. Fimmtíu prósent af fjármagni UNICEF árið 2023 var varið í fimm neyðartilviki sem áttu sér stað í Afganistan, Úkraínu (þar af svæðisbundin viðbrögð vegna hækkandi fjölda barna og fjölskyldna á flótta), Sýrlandi, og vegna sýrlensks fólks á flótta og að lokum, Eþíópíu. Neyðaraðstoð vegna hræðilegra átaka og ófriðar á Gaza krafðist 1,2 milljarða Bandaríkjadala á aðeins þriggja mánaða tímabili. Þessi staðreynd sýnir hversu dýrmæt kjarnaframlög til UNICEF er, eins og t.d. Heimsforeldrar veita með mánaðarlegu framlagi sínu. Kjarnaframlög eins og þau tryggja getu og viðbragðshæfni UNICEF til að bregðast við um allan heim.
Ákall og aðgerðaáætlun UNICEF fyrir árið 2024 felur meðal annars í sér:
- 17,3 milljónir barna verði bólusett gegn mislingum
- 7,6 milljónir barna fái meðferð við alvarlegri bráðavannæringu
- 19,3 milljónir barna fái aðgang að formlegri eða óformlegri menntun
- 26,7 milljónir barna, unglingar og umönnunaraðilar fái aðgang að geðheilbrigðis- og sálfélagslegum stuðningi í samfélagi sínu
- 1,8 milljón heimila hljóti bein fjárframlög frá UNICEF
- 52,4 milljónir manna fái aðgang að hreinu vatni til drykkjar og heimilisstarfa
- 14,8 milljónir kvenna, stúlkna og drengja fái aðgang að ráðgjöf, forvarnarstarfi, aðstoð og viðbrögðum við kynbundnu ofbeldi
- 32,7 milljónir manna fái aðgengi að úrræðum til að sporna við kynferðislegri misnotkun og ofbeldi frá aðilum sem hefur verið falið að veita þeim aðstoð
Þau lönd, aðilar og svæði sem áætlað er að hafi mestu fjárþörfina á næsta ári eru:
- Afganistan
- Sýrlenskt flóttafólk og aðrir viðkvæmir íbúar
- Súdan
- Lýðstjórnarlýðveldið Kongó
- Viðbrögð vegna stríðsins í Úkraínu og barna og fjölskyldna á flótta vegna þess
Verkefni sem þarfnast nauðsynlegrar fjármögnunar eru meðal annars: Súdan, Búrkína Fasó, Lýðstjórnarlýðveldið, Mjanmar, Haítí, Eþíópía, Jemen, Sómalía, Suður-Súdan og Bangladess.
„UNICEF og samstarfsaðilar eru staðráðnir í að veita alhliða neyðaraðstoð í þeim mannúðarkrísum sem hafa áhrif á börn, þar á meðal vegna áhrifa átaka, loftslagsbreytinga og náttúruhamfara. Börn eiga ekki að gjalda fyrir það með lífi sínu og framtíð þegar ófriður skellur á. Börn eiga rétt á viðvarandi aðgangi að nauðsynlegri þjónustu, læknisaðstoð, menntun, hreinu vatni og grunnhreinlætisaðstöðu,“ sagði Russell að lokum.