UNICEF á Íslandi styður rétt barna til þess að taka þátt í samfélaginu og vill fjölga tækifærum þeirra til áhrifa. Að því tilefni standa samtökin fyrir ráðstefnu sem ber heitið „Tækifæri til áhrifa - ráðstefna um þátttöku barna“, þann 15. september næstkomandi á Reykjavík Natura. Fjallað verður um tækifærin sem börn hafa til áhrifa í samfélaginu - um jafnræði og inngildingu, starf sveitarfélaga, ungmennaráð, grunn- og leikskólastigið, ásamt frístundavettvangnum.
Ráðstefnan er bæði ætluð fyrir þau sem starfa með börnum, svo sem kennara og starfsfólk í skólum, frístund, íþróttum, félagsmiðstöð og einnig fyrir aðila innan stjórnsýslunnar sem taka ákvarðanir er varða börn, og annað áhugafólk um réttindi barna og þátttöku þeirra.
Leiðandi sérfræðingur í réttindum barna
Aðalræðumaður ráðstefnunnar verður Marie Wernham sem er sérfræðingur og ráðgjafi í réttindum barna og sérhæfir sig í stefnumótun, þjálfun, rannsóknum og hagsmunagæslu. Marie hefur unnið með börnum, félagasamtökum, UNICEF og Barnaréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna m.a. í tengslum við þátttöku barna, barnavernd, börn í réttarkerfinu og fræðslu á réttindum barna. Hún hefur starfað í yfir 30 löndum og framleitt fjölda þjálfunarhandbóka, hagnýt verkfærasett og skýrslur er varða þátttöku barna.
Skráningarfrestur er til 7. september. Ekkert gjald er tekið fyrir þátttöku.
Þú getur líka fylgst með tilkynningum um viðburðinn hér á Facebook-síðu ráðstefnunnar.
Þú getur horft á beint streymi frá ráðstefnunni hér á YouTube-síðu UNICEF á Íslandi.
Dagskrá ráðstefnunnar:
Boðið verður upp á fjölbreyttar málstofur sem tengjast þátttöku barna í starfi sveitarfélaga, skóla og frístundavettvangsins. Þá geta þátttakendur valið milli tveggja vinnustofa um mikilvægi réttindafræðslu til þess að auka þátttöku barna og um tækifæri til áhrifa í starfi sveitarfélaga.
Ráðstefnan fer fram á Reykjavík Natura 15. september næstkomandi og mun standa frá kl. 11:30 til 16:30.
Fyrir frekari upplýsingar og fyrirspurnir um ráðstefnuna sendið tölvupóst á BARNVAENSVEITARFELOG@UNICEF.IS.
----------------
Dagskráin í heild sinni:
11:30 - 12:00 Opnun
Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastýra UNICEF á Íslandi, og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra ávarpa ráðstefnuna. Lykilræðumenn Hjördís Freyja Kjartansdóttir, meðlimur ungmennaráðs UNICEF á Íslandi og Marie Wernham, sérfræðingur í réttindum barna, fjalla um mikilvægi þess að börn fái tækifæri til áhrifa.
12:00 - 12:30 Hádegishlé
Boðið verður upp á léttar veitingar.
12:30 - 13:15 Málstofur 1 - 3
Þátttakendur velja milli þriggja málstofa sem haldnar eru samhliða. Málstofan Þátttaka barna, inngilding og jafnræði er í höndum Evu Harðardóttur, aðjúnkts við Háskóla Íslands. Hanna Borg Jónsdóttir, verkefnastýra Barnvænna sveitarfélaga stýrir málstofu um Ungmennaráð og áhrif á stjórnsýslu og Sigyn Blöndal, verkefnastýra Réttindaskóla og -frístundar, leiðir málstofu um Áhrif barna á skólastarf.
13:25 - 14:10 Málstofur 4 - 6
Þátttakendur velja milli þriggja málstofa sem haldnar eru samhliða. Málstofunni Þátttaka barna í frístunda- og félagsmiðstöðvastarfi verður stýrt af Pétri Hjörvari Þorkelssyni, þátttökusérfræðingi UNICEF á Íslandi. Í málstofu um Umhverfi og skipulag verður fjallað um þátttöku barna í skipulagi sveitafélaga. Umsjón með málstofunni er í höndum Hönnu Borgar Jónsdóttur. Í málstofu um Þátttöku yngri barna leiðir Sigyn Blöndal umræður um leiksskólastigið.
14:10 - 14:30 Kaffihlé
14:30 - 15:50 Vinnustofur
Réttindafræðsla og þátttaka barna er vinnustofa sem leidd verður af Marie Wernham, sérfræðingi í réttindafræðslu. Þar verður unnið með hugmyndir um mikilvægi fræðslu um réttindi barna til þess að auka þátttöku þeirra og tækifæri til áhrifa.
Barnvæn sveitarfélög og þátttaka barna er vinnustofa sem leidd er af Hönnu Borg Jónsdóttur. Þar fá þátttakendur kynningu á verkefnum Barnvænna sveitarfélaga og góðum dæmum um þátttöku barna til þess að vinna með í hópavinnu.
15:50 - 16:30 Samantekt og lok
Samantekt á lærdómi og skilaboðum ráðstefnunnar. Boðið verður upp á óáfengan drykk.
-----------------
Ráðstefnan er studd af áætlun Evrópusambandsins um réttindi, jafnrétti og borgararétt. (Rights, Equality and Citizenship Programme 2014-2020)